Körfubolti

Fyrrum NBA-leikmaður skotinn til bana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adreian Payne með boltann í leik í NBA deildinni þegar hann spilaði með Minnesota Timberwolves.
Adreian Payne með boltann í leik í NBA deildinni þegar hann spilaði með Minnesota Timberwolves. AP/Jonathan Bachman

Adreian Payne lést í gær eftir að hafa verið skotinn til bana þar sem hann var staddur í Orlando í Flórída-fylki.

Payne, var aðeins 31 árs gamall, en hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.

Maður að nafni Lawrence Dority hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði. Hann hélt kyrru fyrir á morðstaðnum og ræddi við lögreglumenn áður en hann var fluttur í fangelsi.

Atlanta Hawks valdi Payne í nýliðavalinu 2014 og var hann fimmtándi í röðinni.

Payne átti mjög flottan háskólaferil með Michigan State þar sem hann var með 16,4 stig og 7,3 fráköst að meðaltali í leik.

Draymond Green, stjörnuleikmaður Golden State Warriors, minntist hans á samfélagsmiðlum eftir að fréttirnar bárust en þeir voru liðsfélagar í tvö tímabil hjá Michigan State. Hann skrifaði líka minningarorð á skóinn sinn í leiknum í úrslitakeppninni í nótt eins og sjá má hér fyrir neðan.

Payne spilaði í fjögur tímabil í NBA-deildinni og flakkaði á milli liða. Á endanum lét Orlando Magic hann fara eftir að nafn hans kom fram í frétt um meint kynferðisbrot í Michigan State háskólanum árið 2010 en enginn var ákærður í því máli.

Payne lék alls 107 leiki í NBA og var með 4,0 stig og 2,9 fráköst að meðaltali í leik.

Eftir NBA-ferillinn endaði þá reyndi Payne fyrir sér í Evrópu. Á þessu tímabili spilaði hann með Juventus Utena í litháensku deildinni en árið 2021 spilaði hann með Ormanspor í Tyrklandi en auk þess hafði hann spilaði í Grikklandi, Frakklandi og Kína.

Payne vakti mikla athygli þegar hann vingaðist við hina átta ára gömlu Lacey Holsworth sem var með krabbamein. Hún lést aðeins nokkrum vikum eftir að hann leyfði henni að skera bút úr netinu eftir að Michigan State vann Big Ten deildina árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×