Innherji

Sam­tök iðnaðarins taka vel í til­lögu um frystingu fast­eigna­skatta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins. Samtök Iðnaðarins

Samtök iðnaðarins fagna hugmynd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um að frysta fasteignaskatta enda hafi ör hækkun fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði verið langt umfram verðmætasköpun hagkerfisins.

„Það er full ástæða fyrir Reykjavíkurborg að lækka fasteignagjöld því borgin er með hæstu skattprósentu af öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði í samtali við Innherja á föstudaginn að flokkurinn lofaði því að frysta fasteignaskatta nái hann að mynda meiri hluta í borginni eftir kosningar. Hún sagði óeðlilegt að sveitarfélög hefðu fjárhagslega hvata af hækkandi húsnæðisverði.

„Þennan hvata viljum við aftengja, frysta innheimta krónutölu og leggja þannig okkar að mörkum til koma böndum á hækkandi útgjöld heimilanna,” sagði Hildur.

Á undanförnum tólf mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað 22,5 prósent og verið helsti drifkraftur aukinnar verðbólgu. Innheimtir fasteignaskattar námu ríflega 22 milljörðum króna árið 2021, og höfðu þá hækkað um tæplega 38 prósent á kjörtímabilinu. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar er gert ráð fyrir annarri eins hækkun á komandi kjörtímabili og að þeir verði samtals um 28,8 milljarðar króna á árinu 2026.

„Þessi öra hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði hefur verið langt umfram verðmætasköpun hagkerfisins. Með því að draga úr þessari skattheimtu væri verið að létta undir hjá heimilum og fyrirtækjum,“ segir Sigurður

„Það er vel þess virði að skoða það að láta krónutölu gjaldanna standa í stað og aðlaga prósentuna sem verður til þess að ef húsnæðisverð heldur áfram að hækka þá mun prósentan lækka.“

Sigurður bendir á að skattprósenta borgarinnar hafi ekki verið lækkuð ólíkt því sem sum nágrannasveitarfélögin hafa gert og má þar nefna Kópavog og Hafnarfjörð. Frá árinu 2017 hefur sveitarstjórn Kópavogs lækkað álagningarprósentuna úr 1,62 prósentum í 1,44 prósent eða um 0,18 prósentustig í heildina. Einnig hefur Hafnarfjörður á sama tíma lækkað sína álagningarprósentu úr 1,65 prósentum í 1,4 prósent eða um 0,25 prósentur.

Með því að draga úr þessari skattheimtu væri verið að létta undir hjá heimilum og fyrirtækjum

Vegna hárrar álagningarprósentu ásamt háu fasteignaverði og magni atvinnuhúsnæðis er Reykjavík með yfir helming heildartekna af fasteignasköttum á atvinnuhúsæði á landinu. Það þýðir að ríflega önnur hver króna sem innheimt er af fasteignasköttum á landsvísu rennur í borgarsjóð.

Þá bendir Sigurður á að fasteignaskattar á Íslandi séu háir í samanburði við hin Norðurlöndin. Hér á landi eru fasteignaskattar um 0,9 prósent af landsframleiðslu samanborið við 0,2 prósent í Noregi og um 0,4 prósent í Finnland og Svíþjóð svo dæmi séu tekin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×