Klinkið

Upplýsingaóreiða í Efstaleiti

Ritstjórn Innherja skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Vísir/Arnar

Á fréttastofu Ríkisútvarpsins hvíla ríkari skyldur en á öðrum fjölmiðlum. Ástæðan er sú að tilvist stofnunarinnar, sem starfar í samkeppni við aðra miðla og er rekin með skattfé, er byggð á því að hún hafi eitthvað fram að færa, til dæmis hvað varðar gæði og fagleg vinnubrögð, umfram einkamarkaðinn.

Ef vinnubrögð Ríkisútvarpsins eru keimlík því sem þekkist á öðrum fjölmiðlum, og jafnvel verri, þá er alveg eins hægt að sleppa því að reka þetta batterí og beina fjármunum skattgreiðenda í verkefni sem skila merkjanlegum ábata.

Eftir síðustu ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka vexti um eina prósentu birti Ríkisútvarpið viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, þar sem hann lét gamminn geysa, líkt og svo oft áður.

Vaxtahækkun Seðlabankans, sem glímir við verðbólguþrýsting úr öllum áttum, var „stríðsyfirlýsing“ að mati formannsins. Gott og vel, hann getur verið þeirrar skoðunar en blaðamanni láðist að spyrja – rétt eins og blaðamönnum annarra fjölmiðla sem leituðust eftir áliti þeirra félaga Ragnars Þórs og Vilhjálms Birgissonar á vaxtaákvörðun gærdagsins – hvort verkalýðshreyfingin ætlaði að leggja eitthvað af mörkum til að tryggja verðstöðugleika.

Öllu verra var að formaðurinn skyldi fá að segja ósatt, hvort sem það var vísvitandi eður ei. „Nú þarf Seðlabankinn að svara okkur því af hverju þetta er eini seðlabankinn í Evrópu og þótt víðar væri leitað sem er að hækka vexti í þeim aðstæðum sem nú eru, út af stríðsástandi í Úkraínu, heimsfaraldrinum og svo framvegis,“ var haft eftir Ragnari Þór.

Staðreyndin er sú að 21 af 30 seðlabönkum í OCED-ríkjum og G20-ríkjum hefur hækkað vexti í síðustu vaxtaákvörðun. Fullyrðingar formannsins, sem ætlað var að draga úr trúverðugleika seðlabankastjóra, ríma illa við raunveruleikann en hughrifin sitja þó eftir í lesendum fréttarinnar. Sumir myndu kalla þetta upplýsingaóreiðu.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Erum að vinna í haginn fyrir kjarasamninga, segir seðlabankastjóri

„Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verðbólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins af því að þeir ætla sér að auka enn á verðbólguna með því að hækka launin meira en hagkerfið þolir þá þýðir það einungis að Seðlabankinn þarf að keyra hagkerfið niður í kreppu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×