Innherji

Von­svikinn með á­hrif hertra ­skil­yrða á fast­eigna­verð

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Seðlabankastjóri á kynningarfundinum í morgun. 
Seðlabankastjóri á kynningarfundinum í morgun.  VÍSIR/VILHELM

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir vonbrigði að hert lánþegaskilyrði hafi ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignamarkaðinn. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á kynningarfundi peningastefnunefndar bankans í morgun.

Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð sem hefur hækkað um 22,5 prósent á síðustu 12 mánuðum. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar en eins og Innherji hefur fjallað um eru miklar efasemdir um hvort þessi aðgerð hafi hamlandi áhrif á markaðinn.

„Það hefur valdið mér vonbrigðum að þessi skilyrði hafi ekki haldið meira aftur af fasteignamarkaðinum,“ sagði Ásgeir, spurður hvort Seðlabankinn teldi að herða þyrfti skilyrðin enn frekar.

Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra en fyrstu kaupendur var lækkað úr 85 prósentum niður í 80 prósent á síðasta ári. Þá var sett hámark á greiðslubyrðarhlutfall sem tók gildi í desember og hljóðar upp á 35 prósent af ráðstöfunartekjum. Seðlabankastjóri benti þó á að ekki væri útséð um áhrifin.

„Við munum væntanlega sjá það á næstu mánuðum. Við þurfum að sjá það því þótt fasteignamarkaðurinn hafi verið dálítið leiðandi í verðbólgu síðustu misseri – verðbólga án fasteignaliðarins er í kringum 5 prósent – þá eru horfur á því að fasteignaliðurinn verði akkeri fyrir verðbólguna þegar litið er fram,“ sagði Ásgeir.

„Seðlabankinn ætti að hafa öll spil á hendi til að hafa hemil á þessum markaði. Það er bara spurning hversu fast við viljum kveða að orði í því.“

Ég hef aldrei talið að það eigi að banna verðtryggingu [...] En ef ástæðan er sú að komast fram hjá lánþegaskilyrðunum þá er það ekki gott mál.

Þá var seðlabankastjóri spurður hvort hann hefði áhyggjur af því að greiðslubyrðarhlutfallið myndi ýta lántakendum yfir í verðtryggð lán sem bera lægri greiðslubyrði en óverðtryggð lán í upphafi lánstíma.

„Þegar lánþegaskilyrðin voru sett höfðum við áhyggjur af því að þau gætu gefið hvatir til að fólk færði sig yfir í verðtryggt. Þess vegna gerðu þau ráð fyrir því að 40 ára verðtryggð lán séu alltaf metin eins og 30 ára lán.,“ sagði Ásgeir.

„Ég hef aldrei talið að það eigi að banna verðtryggingu, ég tel að fólk eigi að hafa val. […] En ef ástæðan er sú að komast fram hjá lánþegaskilyrðunum þá er það ekki gott mál. Það er eitthvað sem fjármálastöðugleikanefnd þyrfti að skoða ef við teljum að áhætta sé að byggjast upp í kerfinu vegna þess að fólk er að færa sig yfir í verðtryggt.“

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga haldi áfram að aukast og verði í kringum 8 prósent á bæði þriðja og fjórða ársfjórðungi. Þetta er veruleg hækkun frá síðustu verðbólguspá bankans í febrúar og ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3 prósent fyrr en seint árið 2024.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75 prósent. Verðbólga mældist 7,2%prósent í apríl og horfur hafa versnað verulega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×