Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir að Miklabraut verði lögð í stokk á milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar. Núna er einnig óskað eftir tilboðum í hönnun jarðganga milli Snorrabrautar og Grensásvegar.Vilhelm Gunnarsson
Vegagerðin hefur formlega auglýst útboð í hönnun vegna Miklubrautarstokks. Óskað er eftir tilboði í vinnu við frumdrög á breytingum á Nesbraut, eins og Miklabrautin heitir í þjóðvegaskrá Vegagerðarinnar, frá Snorrabraut í vestri og austur fyrir Kringlu.
Athygli vekur að kallað er eftir tilboðum í hönnun á tveimur valkostum. Annars vegar steyptum stokki, samkvæmt gildandi aðalskipulagi, og hins vegar jarðgöngum frá Snorrabraut og austur fyrir gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar. Segir í auglýsingunni að báðir valkostir feli í sér tilfærslu fjögurra akreina bílaumferðar á Miklubraut þannig að þær verði undir yfirborði og undir núverandi gatnamótum.
Val bjóðanda fer fram á grundvelli hæfnismats og verðs og ber bjóðanda að leggja fram tilboð sitt í tveimur hlutum, það er upplýsingar um hæfi bjóðanda og verðtilboð. Tilboðsfrestur rennur út þann 7. júní næstkomandi, eftir rúman mánuð. Viku síðar, þann 14. júní, verður bjóðendum tilkynnt stigagjöf í hæfnisvali og verðtilboð hæfra bjóðenda. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Íbúum í Hlíðahverfi mun fjölga um allt að þrjú þúsund á næstu árum, samkvæmt tillögu sem nú hefur verið valin fyrir uppbyggingu við Miklabraut. Stokkur á svæðinu gæti verið kominn í gagnið eftir þrjú ár.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.