Innherji

Áhrif hækkandi matvælaverðs eiga eftir að „koma inn af fullum þunga“

Hörður Ægisson skrifar
Matvælaverð í vísitölu neysluverðs hefur hækkað um rúmlega fjögur prósent frá því í desember á síðasta ári.
Matvælaverð í vísitölu neysluverðs hefur hækkað um rúmlega fjögur prósent frá því í desember á síðasta ári.

Verðbólguhorfurnar eru dökkar fyrir næstu mánuði og útlit er fyrir að áhrif hærra matvælaverðs, sem hefur hækkað um 5,2 prósent síðasta árið, muni þá koma inn af fullum þunga. Þær miklu verðhækkanir sem hafa orðið á mörgum hrávörum á heimsvísu að undanförnu, meðal annars á sólblómaolíu, hveiti og sojabaunum, eru vart komin inn í matvælaverðið hér á landi.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Jakobsson Capital – undir yfirskriftinni: Babe, you ain´t seen nothing yet – en þar segir að hækkun matvælaverðs geti orðið allt að tugir prósenta. Rifjað er upp að ríkisstofnanir í Bandaríkjunum sáu ástæðu til þess um nýliðna helgi að vara almenning við „hamfarahækkunum“ á matvælaverði og var sérstaklega vísað þar til landbúnaðarafurða þar sem verðhækkanir á áburði eru ein helsta ástæðan.

Fram til þessa hafa innfluttar vörur, að sögn greinenda Jakobsson, lagt sáralítið til verðbólgunnar en líklegt sé að enn frekari hækkun verðs á málmum, timbri og olíu eigi eftir að koma fram í verðlagi innfluttra vara og byggingarkostnaði á næstunni.

Hagstofa Íslands birti mælingu á vísitölu neysluverðs í síðustu viku sem sýndi 7,2 prósenta verðbólgu. Mælingin var aftur hærri en opinberar spár sem lágu á bilinu 6,7 til 6,8 prósent. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman á morgun og er það mat flestra markaðsaðila að stýrivextir bankans verði þar hækkaðir um 75 eða 100 punkta en vextirnir standa nú í 2,75 prósentum.

Ýmsar hrávörur sem eru notaðar í matvælaframleiðslu hafa hækkað á bilinu 20 til 60 prósent á síðustu þremur mánuðum. Fram kemur í greiningu Jakobsson Capital að þær verðhækkanir séu aðeins af litlum hluta komnar inn í matvælaverðið hér á landi en ástæðan er sú að flestir mætvælaframleiðendur hafa birgðir af grunn hráefnum eins og hveiti, maís, sykri og sólblómaolíu.

„Stærstu matvælaframleiðendur í Evrópu eins og Unilever, Danish Crown, Nestle, Oetker Group, Kerry Group og Bakkavör Group eru að stórum hluta varðir fyrir skammtímasveiflum í verði í gegnum framvirka samninga. Þannig getur það tekið allt að þrjá mánuði fyrir hækkun hrávöruverðs að koma fram að fullum þunga hjá stórum matvælaframleiðendum,“ að sögn greinenda Jakobsson.

Þá hækkaði vísitalan fyrir innflutt byggingarefni, eins og Innherji hefur áður fjallað um, um 5,5 prósent í apríl en ekki hefur sést viðlíka hækkun á verði innflutts byggingarefnis frá því að Hagstofan byrjaði að birta sundurliðun byggingarvísitölunnar í byrjun árs 2010. Samkvæmt vísitölunni, sem er undirliður byggingarvísitölu Hagstofu Íslands, hefur verð innflutts byggingarefnis hækkað um 26 prósent frá mars 2020 en á sama tímabili hefur byggingarvísitalan í heild sinni hækkað um rúm 13 prósent.

Fram kemur hjá Jakobsson Capital að sú hækkun ætti ekki að koma þeim á óvart sem þekkja til í byggingargeiranum. „Timbur kemur mikið frá Rússlandi og nær allt steypustyrktarjárn frá Hvíta-Rússlandi. Málmar hafa hækkað gríðarlega í verði líkt og matvæli. Hækkun þessara hráefna hefur ekki aðeins áhrif á fasteignaliðinn og viðhaldskostnað,“ segir í greiningunni, og bent á að bílar, verkfæri, raftæki og fleiri vörur innihalda málma að ógleymdum niðursuðu dósum og áldósum.

Greinandi Jakobsson spyr sig hvað muni gerast þegar matmæli, hrávörur, timbur, stál, olía og flutningskostnaður hækkar í verði um tugi prósenta á skömmum tíma. „Fyrir einu eða tveimur árum síðan hefðu fáir trúað því að verðbólgan í Þýskalandi yrði 7,3 prósent og 7,4 prósent á evrusvæðinu í mars 2022. Það er þó aðeins meðaltalið og var verðbólgan víða í Evrópu farin að sleikja 10 prósent í mars síðastliðnum,“ segir í greiningunni.

Verðbólgan á Íslandi var fyrir neðan meðaltalið í Evrópu en ein ástæða þess er að hækkun olíuverðs hefur mun minni áhrif hér á landi en í mörgum öðrum löndum. Þá hefur gengi krónunnar, sem hefur styrkst talsvert síðustu vikur, verið okkur hliðhollt en hins vegar er hækkun fasteignaverðs mun meiri hér á landi en víða annars staðar.


Tengdar fréttir

Söguleg hækkun á aðföngum sé forsendubrestur sem gæti hægt á uppbyggingu

Vísitalan fyrir innflutt byggingarefni hækkaði um 5,5 prósent í mánuðinum og verð á stáli hefur fjórfaldast á skömmum tíma. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að sögulegar hækkanir á aðföngum séu í mörgum tilvikum forsendubrestur. Ríki og sveitarfélög verði að grípa inn í til að ófremdarástand á húsnæðismarkaði versni ekki enn meira.

Verðhækkun á innfluttu byggingarefni brýst fram með látum

Vísitalan fyrir innflutt byggingarefni hækkaði um 5,5 prósent í apríl en ekki hefur sést viðlíka hækkun á verði innflutts byggingarefnis frá því að Hagstofan byrjaði að birta sundurliðun byggingarvísitölunnar í byrjun árs 2010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×