Innherji

Félag Reynis komið í hóp stærstu hluthafa Kviku

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Reynir var forstjóri SaltPay frá ágúst 2021 til mars 2022.
Reynir var forstjóri SaltPay frá ágúst 2021 til mars 2022.

Fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo, hefur bæst við hóp stærstu hluthafa Kviku banka. Samkvæmt lista bankans yfir hluthafa sem eiga meira en eins prósents hlut fer félagið með 50 milljónir hluta, um 1,04 prósent, sem eru metnir á 1,1 milljarð króna miðað við núverandi markaðsvirði Kviku.

InfoCapital, félag Reynis, kom fyrst inn í hluthafahóp Kviku banka í nóvember á síðasta ári samkvæmt heimildum Innherja en á þeim tíma stóð fjárfestingafélagið Stoðir, þá stærsti hluthafi bankans, í umfangsmikilli sölu á bréfum sínum í Kviku. Eins og Innherji greindi frá minnkuðu Stoðir hlut sinn í bankanum um þriðjung, úr 8,7 prósent í 6,3 prósent á innan við tveimur vikum.

Hlutabréfaverð Kviku hefur lækkað um fimmtung frá því um miðjan nóvember í fyrra, þegar það stóð hvað hæst. Ef litið er á þróunina frá áramótum hefur gengi Kviku lækkað um 15 prósent sem er mun verri gengisþróun en hjá hinum tveimur bönkunum í Kauphöllinni; Arion banka og Íslandsbanka.

Íslensk hlutabréf skiluðu afar góðri ávöxtun í fyrra – Úrvalsvísitalan hækkaði um 33 prósent – og námu fjárfestingatekjur Kviku tæplega 5,7 milljörðum króna borið saman við rúmlega 0,8 milljarða árið 2020.

„Þannig útskýrist tæplega helmingur af auknum fjárfestingartekjum af stærri stöðu í hlutabréfum og rúmlega helmingur af hærri ávöxtun. Ljóst er að afkoma hlutabréfa mun ekki alltaf vera svona góð,“ sagði í síðasta verðmati Jakobsson Capital á Kviku frá því í mars. Í verðmatinu var fullyrt að vægi hlutabréfa eða verðbréfa væri „fullmikið“ í efnahagsreikningi bankans.

Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, tveir stærstu hluthafar Kviku, hafa að undanförnu bætt töluvert við eignarhluti sína í bankanum. Í mars keypti LIVE 28,5 milljónir hluta, eða sem nemur 650 milljónum króna miðað við núverandi gengi bréfanna, og LSR keypti fyrir tæplega 600 milljónir. Þá hefur hlutabréfasjóður Stefnir keypt fyrir um 300 milljónir í Kviku á síðustu vikum.

Eins kunnugt er stofnaði Reynir Creditinfo Group en í mars á síðasta ári seldi hann meiri hluta í fyrirtækinu til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Samstæðan var verðmetin á bilinu 20-30 milljarða króna í viðskiptunum. Skömmu eftir söluna var greint frá því að Reynir hefði keypt fyrir milljarð króna í Arion banka og þar með orðið einn af stærstu einkafjárfestum bankans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×