Innherji

Íslandsbanki kominn í einkaviðræður um sölu á gagnaverinu á Korputorgi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ekkert getur truflað eðlilega starfsemi gagnaversins nema meiriháttar hamfarir.
Ekkert getur truflað eðlilega starfsemi gagnaversins nema meiriháttar hamfarir.

Íslandsbanki er samkvæmt heimildum Innherja kominn í einkaviðræður um sölu á hátæknigagnaverinu Reykjavík DC á Korputorgi en bankinn tók yfir gagnaverið á síðasta ári vegna fjárhagsvandræða. Um er að ræða innlenda aðila sem njóta stuðnings frá erlendum fjárfestum og gæti salan gengið í gegn á næstu vikum. 

Reykjavík DC var samstarfsverkefni Korputorgs, Opinna kerfa, og Sýnar, sem fóru hvert með 30 prósenta hlut, ásamt Reiknistofu bankanna sem átti 10 prósent. Samningar um uppbyggingu gagnaversins voru undirritaðir í byrjun árs 2018 og kom þá fram að fyrsti áfangi myndi kosta hátt í milljarð króna.

Rekstur gagnaversins hófst á fyrri hluta árs 2020, skömmu eftir að Covid-19 kom til sögunnar, en heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn. Í ársreikningi Reykjavík DC fyrir árið 2020 segir í skýrslu stjórnar að heimsfaraldurinn hafi valdið því að seinkun varð á opnun gagnaversins og á sama tíma varð helsti birgir þess gjaldþrota.

„Framkvæmdir við gagnaverið urðu dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir og tekjur voru seinar að koma inn, bæði vegna COVID og sölustarf náði ekki tilætluðum árangri,“ segir jafnframt í skýrslu stjórnar.

Reykjavík DC tapaði 175 milljónum króna árið 2020 – tekjur námu 62 milljónum króna en rekstrarkostnaður og vaxtagjöld 237 milljónum – og í byrjun árs 2021 var staðan orðin sú að félagið gat ekki staðið í skilum á greiðslum af láni frá Íslandsbanka sem stóð í 750 milljónum. Svo fór að Íslandsbanki tók yfir reksturinn.

Tekjur voru seinar að koma inn, bæði vegna COVID og sölustarf náði ekki tilætluðum árangri

Gagnaverið, sem spannar fimm þúsund fermetra, uppfyllir svokallaðan Tier III-staðal sem þýðir að það býr yfir nægum varabúnaður til að tryggja algert þjónustuöryggi. Á meðal þeirra sem gera kröfu um þennan staðal eru fjármálafyrirtæki, stjórnvöld, heilbrigðisstofnanir og raunar allir þeir sem vinna með viðkvæm og dýrmæt gögn.

Meirihluti gagnavera á Íslandi ratar hins vegar í öryggisflokkinn Tier I og hafa þau verið nýtt að miklu leyti til rafmyntaframleiðslu. Raforkusamningar sem byggjast á slíkri starfsemi eru jafnan mjög stuttir og Landsvirkjun hefur sagt að fyrirtækið hafi hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta.

Að undanförnu hafa gagnaverin hins vegar lagt áherslu á að leita til annarra viðskiptavina en þeirra sem eru í vinnslu rafmynta – hlutfallið er sagt núna vera komið undir 50 prósent – og horfa þess í stað til stórra alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana sem þurfa á miklu reikniafli að halda. 

Í umfjöllun Innherja í febrúar kom fram að afar samkeppnishæft orkuverð og ört vaxandi áhugi alþjóðlegra fjárfestingarsjóða á gagnaversiðnaði, hefði skilaði sér í því að þrjú stærstu gagnaverin sem eru starfrækt á Íslandi voru seld fyrir samanlagt yfir 100 milljarða króna á síðustu mánuðum ársins 2021.

Með miklum og stöðugum vexti gagnavera á heimsvísu hefur breiðari hópur fjárfesta, meðal annars sjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum, komið að kaupum á slíkum fyrirtækjum á síðustu misserum og árum og algengt er verðmiðinn í þeim viðskiptum jafngildi liðlega 20-földum EBITDA-hagnaði þeirra.

Rétt fyrir jólin í fyrra var tilkynnt um kaup svissneska fjárfestingarfélagsins Partners Group, sem er skráð á markað og eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu, á hátæknifyrirtækinu atNorth, sem áður hét Advania Data Centers, en það rekur tvö gagnaver á Íslandi og eitt í Svíþjóð.

Ekki var upplýst um kaupverðið á þeim tíma en samkvæmt heimildum Innherja nam heildarvirði (e. enterprise value) atNorth í viðskiptunum um 350 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 45,5 milljarða íslenskra króna á þáverandi gengi.

Þremur mánuðum áður en atNorth var selt til Partners Group var tilkynnt um að sjóðurinn Digital 9 Infrastructure, sem er í stýringu breska fjárfestingafélagsins Triple Point, hefði keypt íslenska félagið Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ á 231 milljón punda, jafnvirði 40,5 milljarða króna á þeim tíma.

Þriðja gagnaversfélagið hér á landi sem var selt seint á síðasta ári var Borealis Data Center, sem áður hét Etix Everywhere Borealis, en tilkynnt var um það í október að franski fjárfestingasjóðurinn Vauban Infrastructure Partners hefði keypt fyrirtækið. Borealis Data Center rekur gagnaver á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ. 

Ekki fengust staðfestar upplýsingar um hvert virði Borealis Data Center var í viðskiptunum en miðað við forsenduna um að verðmiði gagnavera geti jafngilt 20 földum EBITDA-hagnaði þeirra má gróflega áætla að heildarvirði Borealis kunni að hafa verið í kringum 40 milljarðar króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×