Innherji

Loðnuvinnslan metin á ellefu milljarða í kaupum Lífsverks á sex prósenta hlut

Hörður Ægisson skrifar
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði rekur meðal annars fiskimjölsverksmiðju.
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði rekur meðal annars fiskimjölsverksmiðju.

Lífeyrissjóðurinn Lífsverk bættist við hluthafahóp Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði á liðnu ári þegar sjóðurinn keypti samtals um 5,6 prósenta hlut í útgerðarfyrirtækinu. 

Eftir þá fjárfestingu, sem nam um 628 milljónum króna, er Lífsverk næst stærsti hluthafi Loðnuvinnslunnar en Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er eftir sem áður langsamlega stærsti eigandinn með um 80 prósenta hlut.

Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks sem er með heildareignir upp á um 150 milljarða, segir í svari til Innherja að sjóðurinn hafi keypt bréfin í Loðnuvinnslunni í ársbyrjun 2021 fyrir milligöngu verðbréfamiðlara. Hann hafi því ekki upplýsingar um hverjir hafi verið seljendur, en líkast til hafi þar verið að um ræða fleiri en einn fjárfestir.

Miðað við kaupverðið á hlutnum í Loðnuvinnslunni, sem greint er frá í nýrri árskýrslu Lífsverks, var útgerðarfyrirtækið því metið á rúmlega ellefu milljarða króna í viðskiptunum. Í árslok 2021 hafði virði 5,6 prósenta eignarhlutar Lífsverks í fyrirtækinu hins vegar hækkað nokkuð og var hann þá bókfærður á 702 milljónir. Loðnuvinnslan var á þeim tíma því metin á rúmlega 12,5 milljarða króna.

Loðnuvinnslan gerir meðal annars út flottrolls- og nótaveiðiskipið Hoffell SU 80.

Loðnuvinnslan, sem rekur fiskimjölsverksmiðju, frystihús, síldarsöltun og gerir meðal annars út ísfisktogarann Ljósafell, hagnaðist um 663 milljónir króna á árinu 2020 og voru tekjur félagsins það ár um 11,9 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var í árslok 2020 um 10,4 milljarðar og eiginfjárhlutfallið stóð í 54 prósentum. Ársverk voru 171 talsins á árinu 2020 en ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs.

Loðnuvinnslan er með um 1,7 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum á meðal íslenskra útgerðarfyrirtækja.

Í árslok 2020, skömmu áður en lífeyrissjóðurinn Lífsverk fjárfesti í Loðnuvinnslunni, var Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stærsti hluthafinn með rúmlega 83 prósenta hlut. Þar á eftir komu tryggingafélögin VÍS með 4,6 prósent og Sjóva með 3,6 prósenta hlut en Stapi lífeyrissjóður átti 1,7 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×