Viðskipti innlent

Þarf að selja allt sitt í Icelandair

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pálmi Haraldsson er einn stærsti hluthafinn í Icelandair
Pálmi Haraldsson er einn stærsti hluthafinn í Icelandair Vísir/Vilhelm.

Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, þarf að selja allan eignarhlut sinn í Icelandair innan tiltekins tíma, vegna kaupa Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum. Hluturinn er metinn á rétt rúmlega einn milljarð króna.

Greint var frá því í dag að Samkeppniseftirlitið hafi heimilað kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða á grundvelli sáttar sem fyrirtækin hafa gert við eftirlitið.

Fyrir heimsfaraldur fóru þrjár ferðaskrifstofur með 75 til 80 prósent markaðshlutdeild á markaði fyrir sölu pakkaferða frá Íslandi. Fyrirtækin verða nú tvö en hinn stóri aðilinn er Icelandair samstæðan.

Með sáttinni skuldbindur sameinað fyrirtæki sig til þess að grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem samruninn myndi að öðrum kosti valda, þar á meðal þarf að tryggja sjálfstæði gagnvart Icelandair. Kom fram að eignatengsl á milli sameinaðs fyrirtækis og Icelandair yrðu rofin innan tiltekins tímafrests og girt fyrir beitingu atkvæðisréttar þangað til.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, þurfi á grundvelli sáttarinnar að selja öll hlutabréf sem hann á í Icelandair.

Pálmi er áttundi stærsti hluthafinn en hann á 1,49 prósent hlutafjárs Icelandair í gegnum félögin Sólvöll ehf. og Núpur Holding S.A. Miðað við gengi á hlutabréfum Icelandair er hlutur Pálma að virði rúmlega eins milljarðs króna.

Er honum skylt að selja eignarhlutinn innan ákveðins tíma, sem er þó ekki tilgreindur í því skjali sem Samkeppniseftirlitið hefur gert opinbert. Þá er honum óheimilt að hafa ð hafa afskipti af félaginu hvað eignarhlutinn varðar þangað til.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.