Innherji

Nýjar tölur sýna sögulega mikinn útlánavöxt í mars

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hrein ný útlán til atvinnufyrirtækja hefur verið meiri í einum mánuði frá því í ágúst 2018. 
Hrein ný útlán til atvinnufyrirtækja hefur verið meiri í einum mánuði frá því í ágúst 2018.  VÍSIR/VILHELM

Nýjar tölur Seðlabanka Íslands fyrir marsmánuð sýna að hrein ný útlán íslenskra innlánsstofnana hafa aldrei verið jafnmikil í einum mánuði frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013. Mikill vöxtur var í útlánum til bæði fyrirtækja og heimila.

Ný útlán fjármálastofnana, að frádregnum uppgreiðslum, námu tæplega 61 milljarði króna í mars samanborið við nærri 35 milljarða í febrúar. Á tímabilinu sem gögn Seðlabankans ná yfir, þ.e. frá janúar 2013 til mars 2022, hefur einungis gerst þrisvar áður að útlánavöxtur í einum mánuði hafi verið yfir 50 milljörðum króna, fyrst í ágúst 2018 og síðan í mars og apríl í fyrra.

Sundurliðun á tölunum sýnir að hrein ný útlán til atvinnufyrirtækja námu 28 milljörðum króna í mars samanborið við 16 milljarða í febrúar. Hefur aukningin ekki verið meiri frá því í ágúst 2018. Mestu munar um ný útlán til verslunar sem námu 9 milljörðum króna í mars samanborið við tæpan 1 milljarð í febrúar en einnig var töluverður vöxtur í útlánum til þjónustugeirans og sjávarútvegs. 

Að sama skapi jukust var mikill vöxtur í veitingu íbúðalána sem nam 16 milljörðum í mars. Hreinar uppgreiðslur á íbúðalánum með breytilegum vöxtum námu 9 milljörðum króna í mars en ný íbúðalán með föstum vöxtum námu 25 milljörðum króna.

Seðlabanki Íslands hefur brugðist við hækkandi verðbólgu og versnandi verðbólguhorfum með því að hækka vexti úr 0,75 prósentum í 2,75 prósent frá því um vorið 2021. Verðbólgan, sem mælist nú 6,7 prósent, hefur einkum verið drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði sem er upp um 22,5 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Greinendur hafa bent á að þjóðhagsvarúðartækin sem Seðlabankinn hefur beitt til að koma böndum á fasteignamarkaðinn, svo sem greiðslubyrðarhlutfallið sem tók gildi í desember, muni ekki virka sem skyldi.

„Sú staðreynd að heimilin hafa val og geta sótt í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrði sína, eða til að komast fram hjá greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabankans, gerir það að verkum að aðgerðir Seðlabankans eru ekki farnar að hafa hamlandi áhrif á húsnæðismarkaðinn – enn sem komið er,“ sagði Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í síðustu viku.

„Ástæðan er sú að greiðslubyrði sem hlutfall af launum er enn mjög lág í sögulegu samhengi. Þetta á bæði við um óverðtryggð lán og verðtryggð, þá sérstaklega verðtryggð lán vegna þess að breytilegir vextir þeirra hafa lækkað að undanförnu.“

Innherji greindi frá því í síðustu viku að heimilin væru á ný farin að sækjast í auknum mæli eftir því að taka óverðtryggð íbúðalán hjá lífeyrissjóðunum. Í febrúar á þessu ári námu ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, samtals tæplega sex milljörðum króna og jukust þau um meira en tvöfalt á milli mánaða. Var þetta mesta útlánaaukningin í óverðtryggðum íbúðalánum sjóðanna í einum mánuði frá því í október á árinu 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×