Viðskipti innlent

Seðla­bankinn sýknaður af kröfum Arion banka

Bjarki Sigurðsson skrifar
Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Arion banka.
Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Arion banka. Vísir/Vilhelm

Seðlabanki Íslands og íslenska ríkið voru sýknuð af öllum kröfum Arion banka vegna sektar sem Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) lagði á Arion banka. Bankinn vildi fá sektina niðurfellda.

Þann 7. júlí 2020 sektaði fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands Arion banka um tæpar 88 milljónir króna fyrir að birta ekki innherjaupplýsingar um fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir eins fljótt og auðið var.

Vefur Mannlífs hafði birt kvöldið 22. september 2019 frétt um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og uppsagnir hjá Arion banka. Bankinn tilkynnti breytingarnar ekki til FME fyrr en 26. september og mat nefndin sem svo að breytingarnar hafi ekki verið tilkynntar eins fljótt og auðið er, líkt og segir í lögum um verðbréfaviðskipti.

Uppsögn starfsfólks ekki hluti af upplýsingunum

Bankinn sagði að innihald fréttar Mannlífs hafi ekki verið það sama og innherjaupplýsingarnar kváðu um. Skipulagsbreytingar með uppsögn starfsfólks hafi ekki verið hluti af þeim innherjaupplýsingum sem bankinn frestaði birtingu á.

Bankinn vildi meina að andmælaréttur hans hafi verið virtur að vettugi við meðferð málsins en héraðsdómur hafnaði því.

Arion banki vildi að ákvörðunin yrði felld úr gildi og að þeim yrði endurgreidd sektin með vöxtum en héraðsdómur féllst ekki á það.

Bankanum var gert að greiða FME og íslenska ríkinu sameiginlega eina og hálfa milljón í málskostnað.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.