Umræðan

15.000 prósenta vöxtur í komum skemmtiferðaskipa

Björgvin Ingi Ólafsson skrifar

Hagtölur á Covid tímum voru frekar fáránlegar. Gröf sem sýna breytingar milli ára síðustu árin sýna sitt á hvað 70% lækkun eða 300% hækkun. Mikilvægt er að blaðamenn og greinendur verði prósentufælnir því ef við pössum okkur ekki þá verða fréttir og fyrirsagnir um 1.721% eða jafnvel 15.000% vöxt á á vegi okkar innan tíðar.

Á Covid tímum réðu hagfræðingar enn verr við módelin sín en venjulega og spáðu vitlaust hver í kapp við annan. Hagfræðingar hafa þurft að líta til bæði hefðbundinna vísbendinga eins og lausra starfa, sjá graf frá Bloomberg að neðan, þar sem litið er til fortíðarinnar auk nýrra hátíðnigagna eins og daglegra og síbreytilegra smittalna sem fólk vissi illa hvaða áhrif hefðu.

Það gekk ekkert að spá og síðustu ár segja okkur voðalega lítið um hvers er að vænta í ár. Það liggur við að best sé að leggja til að klippa Covid árin einfaldlega út og bera 2022 saman við 2019 því árin 2020 og 2021 eru algjör útgildi og segja ekkert um hvers megi vænta eða hver staðan er. Sama gildir um hlutabréf. Fyrirtæki sem nutu þess þegar allt fólk var heima hjá sér tóku ótrúlegt flug, flug sem gerði ráð fyrir að þessi staða myndi vara að eilífu hafa hafið lendingu. Peloton, sem framleiðir og selur fín líkamsræktartæki, flaug með himinskautum en endaði svo á að reka forstjórann þegar hlutirnir fóru að róast, og verð hlutabréfa lækkaði. Sama gilti um fleiri eins og fjarfundafyrirtækið Zoom eða streymisveituna Netflix.

Hlutabréf fóru upp hratt og brotlentu svo mörg.

Brjálaðar tölur finna taktinn

Fyrstu vísbendingar af rekstrar- og hagtölum eftir Covid eru að Covid hafi einfaldlega ekki haft varanleg áhrif. Brjálaðar tölur finna sinn gamla góða takt og það sem var að þróast línulega fram að Covid er nánast að falla inn í sömu þróunarlínu núna að Covid liðnu.

Öll aftur á veitingastaði

Fram að covid jókst sú fjárhæð sem við vörðum í veitingar að jafnaði um 10% á ári. Við fórum svo nánst ekkert út að borða eða að sækja okkur snæðing í Covid og neyslan á veitingastöðum dróst eðlilega þá mikið saman.

Að loknu Covid virðist neysla á veitingastöðum vera að aukast hratt aftur. Sem dæmi þá jókst velta á veitingastöðum um fjórðung milli ára í mars samkvæmt rannsóknarsetri verslunarinnar. Nú lítur út fyrir að sú línulega þróun sem við sáum síðasta áratug haldi áfram nú eftir Covid, ef við einfaldlega klippum þessi undarlegu útgildi áranna 2020 og 2021 út.

Ef horft er á veitingastaði út frá hlutfalli veitinga af einkaneyslu í heild má sjá að það jókst stöðugt fyrir Covid og náði jafnvægi í um 10% af einkaneyslu en lækkaði í 7% á Covid tímanum. Ég ætla að leyfa mér að giska á að hlutfallið verði ekki 8% árið 2022 aftur heldur frekar nær 10% eins og á árunum fyrir Covid.

Engin gröf um 15.000% vöxt, takk!

Fáar hagtölur voru brjálaðri í Covid en tölurnar úr ferðamennskunni. Ísland fór úr því að vera nánast uppselt í að vera án eftirspurnar. Að horfa til tímans þegar landið var lokað í einhverjum spám er glórulaust, ársbreytingaprósentur tilgangslausar og öll ættum við gera okkur grein fyrir því. Nýting á hótelherbergjum fór úr 70% í 20%, farþegum fækkaði úr milljónum í þúsundir og skemmtiferðaskip komu einfaldlega ekki. Að bera saman þúsund ferðamenn á skemmtiferðaskipum ársins 2020 við það sem síðar gerist hjálpar ekki nokkrum.

Vona samt að við sjáum ekki frétt á Innherja um 15.000% vöxt í komum gesta skemmtiferðaskipa innan tíðar.

Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.