Körfubolti

Sara Rún stigahæst í tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mynd/kkí

Landsliðskonan Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæsti leikmaður Phoenix Constanta er liðið mátti þola 13 stiga tap gegn Satu Mare í úrslitakeppni rúmensku deildarinnar í körfubolta, 65-52. Þetta var fyrsti leikur liðanna í einvíginu um þriðja sæti rúmensku deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og lítið sem virtist geta skilið þau að. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn aðeins tvö stig, staðan 38-36 Satu Mare í vil.

Sara og stöllur hennar áttu svo afleitan þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði aðeins fimm stig. Heimakonur í Satu Mare gengu á lagið og náðu afgerandi forystu. Það bil sem þarna myndaðist á milli liðanna náðu Sara og liðsfélagar hennar aldrei að brúa og niðurstaðan varð 13 stiga tap, 65-52.

Sara var sem áður segir stigahæst í liði Phoenix Constanta með 14 stig, en hún tók einnig tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér þriðja sætið, en liðin mætast á nýjan leik á heimavelli Phoenix Constanta næstkomandi föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×