Innherji

Sjóður Frumtaks hagnast um 6 milljarða eftir miklar hækkanir á gengi Controlant

Hörður Ægisson skrifar
Svana Gunnarsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures frá 2019.
Svana Gunnarsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures frá 2019.

Vísissjóðurinn Frumtak 2, sem er rekinn af Frumtak Ventures og er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, skilaði um 6.050 milljónum króna í hagnað á árinu 2021 borið saman við rúmlega einn milljarð króna árið áður. Hagnaður sjóðsins kemur einkum til vegna stórs eignarhlutar í hátæknifyrirtækinu Controlant sem hefur margfaldast í virði og var metinn á tæplega átta milljarða í lok síðasta árs.

Fjáreignir Frumtaks 2, samlagshlutafélag sem var stofnað um fjárfestar sjóðsins árið 2014, nema samtals um 11,4 milljörðum króna og var gangvirði þeirra hækkað um meira en sex milljarða á liðnu ári og byggist það meðal annars á þekktu viðskiptaverði með hlutabréf félaganna. Í nýbirtum ársreikningi félagsins er sú hækkun ekki sundurliðuð milli ólíkra fyrirtækja í eignasafni Frumtaks 2 en ljóst er að hún stafar einkum af eignarhlutnum í Controlant.

Fyrir utan að fara með 8,7 prósenta hlut í Controlant er sjóðurinn til dæmis stór hluthafi í Sidekick Health, Meniga, Kaptio og Tuliopop.

Gengi óskráðra hlutabréfa Controlant, sem hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer, fimmfaldast á um einu ári og undir lok ársins 2021 og fram í byrjun þessa árs voru mörg stór viðskipti með bréf í félaginu á genginu 15 þúsund krónur á hlut. Miðað við gengi bréfanna á þeim tíma var markaðsvirði tæknifyrirtæksins um 90 milljarðar króna sem er meira en markaðsvirði meirihluta skráðra félaga í Kauphöllinni.

Frumtak 2 átti í ársbyrjun 2021 tæplega 700 þúsund hluti í Controlant, um 13 prósent af hlutafé, en seldi 175 þúsund hluti í byrjun árs 2021, eins og Innherji hefur sagt frá. Skömmu áður, í nóvember 2020, hafði verið greint frá því að Frumtak 1, sem er undir hatti sama sjóðastýringarfélags og keypti sig fyrst inn í Controlant árið 2011, hefði selt rúmlega 11 prósenta hlut sinn fyrir um 2 milljarða. Gengið í þessum viðskiptum sjóða Frumtaks var rétt rúmlega 3 þúsund krónur á hlut.

Fram kemur í ársreikningi Frumtaks 2 að sjóðurinn hafi selt eignir á árinu 2021 fyrir 544 milljónir og að söluhagnaðurinn hafi verið 31,5 milljónir króna.

Hlutabréfaverð Controlant fór að lækka nokkuð þegar líða fór á þetta ár, samhliða óróa á erlendum mörkuðum og miklum verðlækkunum tæknifyrirtækja, og talsvert var um stór viðskipti með bréf félagsins á genginu 10 þúsund krónur á hlut í febrúar og mars. Sjóvá sá þannig meðal annars ástæðu til að senda frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í byrjun apríl um að tryggingafélagið hefði fært niður virði óskráðra eigna um 300 milljónir og skýrðist niðurfærslan að mestu vegna breytinga á gengi bréfa Controlant. Sjóvá hafði áður bókfært 1,38 prósenta hlut sinn í fyrirtækinu á einn milljarð króna í árslok 2021.

Frumtak 2 hefur sjö ára líftíma en stjórn félagsins er heimilt að framlengja hann þrisvar sinnum, um eitt ár í senn. Í skýrslu stjórnar kemur fram að þegar hafi verið samþykkt að framlengja líftímann fram í nóvember 2022 og að áhersla sjóðsins sé nú lögð á sölu eigna til þess að geta lokið þeim innan þess tímaramma sem hann hefur.

Um mitt árið í fyrra kláraði Frumtaks Ventures fjármögnun og stofnun á þriðja vísissjóðnum – Frumtak 3 – og er hann 7 milljarðar króna að stærð. Frumtak 3 er sérhæfður vísisjóður sem mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni fjárfesta í 8 til 10 fyrirtækjum fyrir um 200 til 500 milljónir króna í hverju félagi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×