Klinkið

Að lepja upp gífuryrði frá samtökum úti í bæ

Ritstjórn Innherja skrifar
Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Vísir

Íslandsdeild Transparency International hefur litla sem enga vigt í umræðu um spillingu. Til að nefna dæmi er vert rifja að samtökin sendu frá sér tilkynningu í fyrra þar sem fullyrt var að Ísland hefði fallið niður á svonefndum spillingarvísitölulista og átti það að vera mikið áhyggjuefni. 

Nánari athugun leiddi hins vegar í ljós að breytingin milli ára var ekki marktæk og það var einungis huglægt mat tveggja íslenskra prófessora, ekki hlutlæg mæling, sem dró landið lítillega niður. Eftir þetta frumhlaup hefði mátt ætla að fjölmiðlar mynda taka öllu sem frá þessum samtökum kemur með fyrirvara.

En allt kom fyrir ekki. Samtökin, sem eru í raun eins manns starfsemi, eiga enn greiða leið að fjölmiðlum eins og sást nýlega í kjölfar hlutafjárútboðs Íslandsbanka. Sala fjármálaráðherra á hlut ríkisins var sögð „skólabókardæmi um spillingu“ og jafnframt var því haldið fram að enn hrannist upp „vísbendingar um spillta meðferð málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar.“ Þá var gefið til kynna að þingið gæti neyðst til að sækja ráðherrann til saka.

Framkvæmd hlutafjárútboðsins með tilboðsfyrirkomulagi til dreifðs hóps hæfra fagfjárfesta átti ekki að koma neinum á óvart. Sumt í ferlinu hefur ekki verið til fyrirmyndar, eins og þátttaka starfsmanna fjármálafyrirtækja sem voru jafnframt söluráðgjafar, og eðlilegt er að rýnt verði betur í það sem betur mátti fara. Hlutverk fjölmiðla í þessu ferli er meðal annars það að sía út gífuryrði um helbera spillingu frá samtökum úti í bæ sem eru einungis til þess fallin að afvegaleiða umræðuna.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.