Golf

„Hefur ekki hugmynd um hversu erfitt þetta hefur verið“

Sindri Sverrisson skrifar
Tiger Woods er aftur mættur á Masters og lék vel á fyrsta hring þrátt fyrir að eiga erfitt með gang.
Tiger Woods er aftur mættur á Masters og lék vel á fyrsta hring þrátt fyrir að eiga erfitt með gang. Getty/Andrew Redington

Tiger Woods segir að það sé erfitt fyrir sig að ganga um Augusta-golfvöllinn vegna bílslyssins alvarlega sem hann lenti í fyrir. Hann lék þó vel á fyrsta hring Masters-mótsins í gær.

Tiger er í flottum málum á einu höggi undir pari og var í 10. sæti eftir fyrsta hring. Im Sung-jae frá Suður-Kóreu var efstur áður en kylfingar hófu leik í dag, á -5 höggum.

„Ég get alveg sveiflað golfkylfu en að ganga er ekki auðvelt. Það er erfitt. Eins og ég hef sagt varðandi þá miklu vinnu sem liggur að baki, varðandi fótinn minn, þá verður þetta erfitt það sem eftir er ævinnar. Þannig er það bara en ég ræð við þetta,“ sagði Tiger við fjölmiðla í gær en eftir bílslysið óttuðust læknar að taka þyrfti annan fótinn af kylfingnum.

Klippa: Tiger Woods eftir fyrsta hring á Masters

„Ég er mjög heppinn að hafa fengið þetta tækifæri til að spila golf, og ekki bara það heldur spila á Masters og fá svona móttökur. Stemningin var rafmögnuð. Ég hef ekki spilað í svona andrúmslofti síðan ég vann hérna árið 2019 því árið 2020 var COVID og svo spilaði ég ekkert á síðasta ári. Það var stórkostleg tilfinning að hafa alla stuðningsmennina og orkuna frá þeim aftur hérna,“ sagði Tiger sem unnið hefur Masters-risamótið fimm sinnum.

Það er fullt af frábærum kylfingum á Masters en enginn nýtur nálægt því sömu vinsælda og Tiger Woods.Getty/Jamie Squire

„Ég gerði eitthvað gott í dag“

Tiger sagði ekki auðvelt að lýsa því með orðum hvað hann hefði í raun afrekað með því að snúa aftur á risamót í golfi ári eftir bílslysið:

„Fólk hefur ekki hugmynd um hversu erfitt þetta hefur verið. Liðið mitt veit það. Það hefur unnið með mér á hverjum einasta degi,“ sagði Tiger sem lá á sjúkrahúsi í þrjá mánuði eftir slysið.

„Við höfum ekki tekið einn frídag eftir þessa þrjá mánuði í rúminu. Vissulega eru sumir dagar auðveldari en aðrir. Suma daga þurfum við að hafa mikið fyrir þessu og aðra ekki. En við gerum alltaf eitthvað. Þetta er skuldbinding til að snúa aftur, og snúa aftur með þeim hætti að mér finnist ég enn geta þetta. Ég gerði eitthvað gott í dag,“ sagði Tiger.

Bein útsending frá öðrum degi Masters hefst klukkan 19 á Stöð 2 Golf.  Tiger verður þá byrjaður að spila en hann er í ráshóp sem byrjar klukkan 17:40 að íslenskum tíma.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×