Innherji

Hagnaður LEX jókst um 40 prósent, besta afkoman frá 2009

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Ingvi Sigurðsson, einn eigenda lögmannsstofunnar LEX.
Guðmundur Ingvi Sigurðsson, einn eigenda lögmannsstofunnar LEX.

Hagnaður LEX, einnar stærstu lögmannsstofu landsins, nam tæplega 269 milljónum króna eftir skatt á síðasta ári og jókst um 40 prósent frá fyrra ári. Tekjur félagsins hækkuðu um nærri 90 milljónir á milli ára og voru samtals 1.342 milljónir króna.

Afkoma LEX í fyrra er sú besta frá árinu 2009 en lögmannsstofan skilaði þá hagnaði upp á rúmlega 290 milljónir.

Fjöldi ársverka hjá LEX var 45 og hélst óbreyttur frá árinu 2020. Þá stóð launakostnaður félagsins nánast í stað og var samtals um 704 milljónir.

Hluthöfum félagins fækkaði um fjóra í fyrra og voru þeir í árslok 16 talsins. Miðað við það nam hagnaður á hvern eiganda að meðaltali um 17 milljónum króna samanborið við tæplega 10 milljónir á árinu 2020. Eignarhlutur stærstu hluthafa LEX er liðlega 10,3 prósent.

Síðasta ár einkenndist af mörgum stórum yfirtökum og samrunum í íslensku viðskiptalífi, einkum fyrirtækjakaupum af hálfu erlendra fjárfestingasjóða, sem ætla má að hafi haft jákvæð áhrif á afkomu LEX eins og annarra lögmannsstofa sem hafa komið að þeim verkefnum.

Lögmannsstofan var þannig meðal annars ráðgjafi franska fjárfestingasjóðsins Ardian sem náði samkomulagi um kaup á Mílu, dótturfélagi Símans, fyrir samtals 78 milljarða króna í október í fyrra. Þá var LEX ráðgjafi svissneska eignastýringarfyrirtækisins við kaup á atNorth undir lok síðasta árs en heildarvirði íslenska gagnversins í þeim viðskiptum var um 350 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 45 milljarða króna á þáverandi gengi.

LEX var einnig lögfræðilegur ráðgjafi Síldarvinnslunnar við hlutafjárútboð og skráningu útgerðarfélagsins á markað í maí á síðasta ári.

Í hópi stærstu eigenda LEX eru meðal annars lögmennirnir Arnar Þór Stefánsson, Guðmundur Ingvi Sigurðson, Eyvindur Sólnes, Lilja Jónasdóttir og Ólafur Haraldsson.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×