Körfubolti

Svíar hentu sínum Jóni Arnóri úr lands­liðinu eftir hann samdi við rúss­neskt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonas Jerebko samdi við rússneska stórliðið CSKA Moskvu og hefur fengið mjög sterkt viðbrögð við því.
Jonas Jerebko samdi við rússneska stórliðið CSKA Moskvu og hefur fengið mjög sterkt viðbrögð við því. Getty/Denis Tyrin

Jonas Jerebko er stærsta körfuboltastjarna Svía í gegnum tíðina sem lék um tíma með Golden State Warriors. Nýjasti samningur hans vakti ekki mikla lukku í heimalandinu.

Sænska körfuboltasambandið tilkynnti í gær að Jerebko hefði verið sparkað úr sænska landsliðinu og það er ekki af því að hann er ekki nógu góður.

Ástæðan er nýr samningur hans við rússneska félagið CSKA Moskvu.

Jonas Jerebko hefur spilað 635 leiki í NBA með fjórum félögum, Detroit Pistons, Boston Celtics, Utah Jazz og Warriors. Hann er Jón Arnór Stefánsson þeirra Svía.

Jerebko hefur verið leikmaður rússneska félagsins Khimki Moskvu frá 2019 en sagði upp samningi sínum af persónulegum ástæðum í janúar síðastliðnum.

30. mars síðastliðinn þá fann Jerebko sér hins vegar nýtt félag og það er CSKA í Moskvu. Hingað til hafa erlendir íþróttamenn keppst við að forða sér frá Rússlandi en þessi sænski körfuboltamaður fékk greinilega of góðan samning til að geta hafnað honum.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og sænska körfuboltasambandið gaf það út að fulltrúi sænska landsliðsins gæti ekki ekki tekið svona ákvörðun. Rússar hafa verið fordæmdir út um allan heim eftir innrás sína í Úkraínu. Landslið, lið og íþróttafólk Rússa hafa verið útilokuð frá alþjóðlegri keppni.

„Sem leikmaður sænska landsliðsins þá ertu að koma fram fyrir sænskan körfubolta en þetta er líka maður sem sambandið á persónulegt samband við. Þess vegna var mikilvægt fyrir okkur að tala við Jonas Jerebko áður en við myndum ákveða eitthvað,“ skrifaði Susanne Jideste hjá sænska körfuboltasambandinu í yfirlýsingu.

„Eftir þetta samtal höfum við því miður þurft að stíga þetta skref og lýsa því yfir að Jonas Jerebko á ekki lengur samleið með sænska körfuboltalandsliðinu,“ skrifaði Jideste.

Einn af styrktaraðilum Jerebko, Vitamin Well, hefur einnig sagt upp styrktarsamningi sínum við hann og svo gæti farið að hann yrði ekki sá eini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×