Viðskipti innlent

Dohop tryggir sér hundraða milljóna fjár­mögnun til að breyta flugi

Eiður Þór Árnason skrifar
Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop. Aðsend

Íslenska ferðatæknifyrirtækið Dohop hefur tryggt sér frekari fjármögnun frá breska fjárfestingasjóðnum Scottish Equity Partners (SEP) sem sérhæfir sig í fjárfestingum í vaxandi tæknifyrirtækjum. Fjárfestingin er sögð hlaupa á hundruðum milljóna króna en SEP fjárfesti fyrst í Dohop í lok árs 2020.

Fjárfestingin mun fjármagna frekari vöxt félagsins sem hyggst ráða um þrjátíu nýja starfsmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dohop. Fyrirtækið gerir flugfélögum kleift að selja tengiflug með öðrum flugfélögum og fjölga þannig áfangastöðum og farþegum.

„Fjöldi flugfélaga í viðskiptum við Dohop hefur tvöfaldast frá því í lok árs 2020 þegar SEP fjárfesti fyrst í félaginu. Síðan þá hefur verið töluverður starfsmannavöxtur hjá félaginu en 25 manns hafa bæst í hópinn. Viðbótarfjárfesting SEP mun auka vöxt okkar enn frekar og efla tækni okkar til að gjörbylta tengingum í flugi,“ segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.

Tæknin sé leiðandi í heiminum

Um sextíu flugfélög nýta tækni Dohop í dag, þar á meðal easyJet, Air France, Vueling, Transavia og Eurowings. Dohop byggir á átján ára reynslu sinni sem flugleitarvél og þeirri tækni sem liggur þar að baki.

„Með afléttingu ferðatakmarkana eftir heimsfaraldurinn hafa flugfélög mikinn áhuga á að stækka leiðarkerfi sín og dreifingargetu. Tækni Dohop til að tengja leiðarkerfi flugfélaga saman er leiðandi í heiminum. Við erum ánægð með að veita félaginu aukna fjármögnun til að vaxa enn frekar,“ segir Andrew Davidson, framkvæmdastjóri hjá SEP.

Árið 2007 fjárfesti SEP í Skyscanner sem er ein vinsælasta flugleitarvél í heimi. Skyscanner var selt árið 2016 til Trip.com á jafnvirði 210 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur í tilkynningu. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×