Klinkið

Lítil breyting færir karpið úr bakherbergjum og í þingsal

Ritstjórn Innherja skrifar
Óli Björn Kárason er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Alþekkt er að stjórnarliðar geri fyrirvara um hin ýmsu stjórnarfrumvörp en breytt vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins í þinginu gera hins vegar sérstaklega ráð fyrir því að fyrirvararnir verði kynntir opinberlega og skrifaðir út í ræðum og andsvörum í þinginu.

Þingmenn flokksins riðu á vaðið í vikunni og gáfu heilbrigðisráðherra engann afslátt í fyrstu umræðu um bann við ákveðnum bragðtegundum nikótínpúða. Þá voru þingmenn flokksins beittir í gagnrýni sinni í fyrstu umræðu um stjórn Landspítalans. Breytingin mun án efa hressa upp á stjórnarsamstarfið og færa karp um einstök mál úr bakherbergjum og inn í þingsal.

Hefðin er sú að ráðherrar leggi fram frumvörp fyrir ríkisstjórn og þau afgreidd þar. Í framhaldinu eru frumvörp lögð fyrir þingflokka meirihlutaflokkanna þar sem málin eru samþykkt til framlagningar, oft án þess að nokkurra mótmæla sé hreyft við - þó málin teljist umdeild í stjórnarsamstarfi þriggja ólíkra flokka.

Í framkvæmd hefur þetta í raun verið þannig að þingflokkar sem aðild hafa að ríkisstjórnarsamstarfinu hafa haft tvö tækifæri til að koma athugasemdum til skila áður en ráðherrar leggja fram mál. Annars vegar á ríkisstjórnarfundum með því að stöðva afgreiðslu mála þar og hins vegar með því að neita að afgreiða þingmál úr þingflokkum stjórnarflokkanna nema að gerðar verði ákveðnar breytingar á þeim. 

Einstaka sinnum hefur komið fyrir að þingflokkar samþykkja stjórnarmál úr þingflokkum með þeim fyrirvörum að það verði gerðar breytingar á frumvarpinu í fastanefndum þingsins. Og það er í raun það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér í auknum mæli.

Samkvæmt heimildum Innherja er þessi breyting viðleitni nýs þingflokksformanns Óla Björns Kárasonar til þess að halda uppi gagnrýni og aðhaldi innan þingsins. Einn viðmælandi sagði fáránlegustu mál hafa komist í gegn án athugasemda undanfarin ár. Þessi litla breyting væri til þess fallin að minna þingmenn á hlutverk sitt; að fylgja eigin sannfæringu.

Og árétting Óla Björns virðist hafa haft tilætluð áhrif. Í umræðu um nikótínpúðana var Hildur Sverrisdóttir fyrst til að koma með andsvar á ráðherrann, á undan stjórnarandstöðu og Berglind Ósk Guðmundsdóttir með þeim fyrstu til að halda ræðu þar sem þær drógu heilbrigðisráðherrann sundur og saman í háði fyrir að ætla að banna nikótínpúða með ávaxta- og nammibragði. 

Óli Björn og Guðrún Hafsteinsdóttir voru svo afgerandi í gagnrýni sinni á frumvarp sama ráðherra um stjórn Landspítalans.

Vitaskuld er ekkert nýtt við það að einstaka þingmenn, þótt innan stjórnarinnar séu, gagnrýni mál sem þeir eru ósammála. Hins vegar hlýtur það að vera gleðiefni fyrir stjórnmálaáhugamenn að ágreiningur milli stjórnarliða sé ekkert feimnismál og þingmenn - sem sannarlega eiga að fylgja eigin sannfæringu - gagnrýni en verji ekki stjórnarmál sem þeim hugnast ekki.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×