Klinkið

Launaskrið ríkisforstjóra fékk blessun frá bankaráðsformanni

Ritstjórn Innherja skrifar
Gylfi Magnússon, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. 
Gylfi Magnússon, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. 

Það hefur gerst oftar einu sinni og oftar en tvisvar að rausnarlegar launahækkanir til handa háttsettum embættismönnum og ríkisforstjórum hleypi illu blóði í vinnumarkaðinn og kyndi þannig undir launahækkanir. Þetta er þrálátt og í senn hvimleitt vandamál fyrir atvinnulífið sem á mikið undir því að umsamdar hækkanir endurspegli hversu mikil verðmæti eru raunverulega til skiptanna.

Vert að rifja upp nýlega frétt þar sem fram kom að árslaun Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, hefðu hækkað um 7 milljónir króna á síðasta ári. Eftir rúmlega 15 prósenta launahækkun og eingreiðslu upp á 3 milljónir króna námu árslaun forstjórans nærri 39 milljónum króna samanborið við tæplega 32 milljónir árið 2020. Eflaust verður þetta ofarlega í huga verkalýðsforingja þegar þeir setjast við samningaborðið.

En það sem er sérlega athyglisvert við þessa ákvörðun er að varaformaður stjórnar Orkuveitunnar, Gylfi Magnússon, er jafnframt formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Eðli málsins samkvæmt er Seðlabankinn á meðal þeirra sem þurfa að bregðast við efnahagslegum áhrifum launahækkana og hann hefur nóg á sinni könnu. Fasteignaverð er komið úr böndunum og hávöruverðhækkanir magna upp verðbólguþrýsting sem ekki var lítill fyrir. Það veltur mikið á því að viðsemjendur á vinnumarkaði komist að skynsamlegri niðurstöðu í næstu kjaraviðræðum.

Og það gæti þýtt að færa þurfi fórnir. Seðlabankastjóri sagði í viðtali við Innherja í síðustu viku að ekki væri hægt að knýja fram meiri kaupmáttaraukningu á meðan hrávöruverð færi hækkandi.

„Ef það á að gera kjarasamninga til langs tíma þá þurfa aðilar vinnumarkaðarins að viðurkenna þann raunveruleika að það náist mögulega ekki árangur í að hækka raunlaunin á fyrsta ári á meðan við erum að há þessa baráttu við verðbólguna – heldur að það muni frekar gerast á öðru og þriðja ári samningsins,“ sagði seðlabankastjóri.

Þegar útlit er fyrir að löng og samfelld kaupmáttaraukning sé á enda komin er heppilegt að hafa tryggt sér ríflega hækkun með blessun frá formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Stjórnarformaður Orkuveitunnar óskaði eftir að koma á framfæri eftirfarandi athugasemd:

Árslaun forstjóra OR hækkuðu ekki um 6,8 milljónir milli ára því eins og fram kemur í samþykkt stjórnar OR fyrir ári síðan, og fjölmiðlar fjölluðu þá um, fékk forstjóri OR eingreiðslu á árinu 2021 sem nam þremur milljónum króna. Þá höfðu laun hans engum breytingum tekið í tvö ár. Ef frá er dregin sú eingreiðsla hafa hækkanir á launum forstjóra síðustu tvö ár ekki verið umfram vísitöluhækkanir.

Skv 7. gr. ráðningarsamnings forstjóra á forstjóri skýran rétt á endurskoðun launa sinna einu sinni á ári. Þessi samningsskylda var ekki uppfyllt gagnvart forstjóra í tvö ár. Af þeirri ástæðu var ákveðið að mæta því sjónarmiði með þeim hætti að reikna út leiðréttingu launa á grundvelli sömu forsendna og varða hækkun á launavísitölu á því tímabili sem um ræðir. Eingreiðslan fólþannig í sér leiðréttingu til að mæta þeirri staðreynd að við samningsskyldur á grundvelli 7. gr. ráðningarsamningsforstjóra var ekki staðið.

Þess skal getið að forstjóri hlaut sérstaka þóknun fyrir stjórnarsetu eins og aðrir stjórnarmenn dótturfélaga á þeim tíma en hætti að þiggja slíka þóknun þegar hann gekk úr stjórnum dótturfélaganna. Lækkaði því umbun forstjóra um 480 þúsund árið 2019Heildarlaun forstjóra í dag eru 2.872.669 krónur á mánuði auk bifreiðahlunninda.

Samið er um laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur að undangengnu ítarlegu mati á frammistöðu í starfi og þá lét stjórn OR endurskoðunarfyrirtækið PWC intellecta vinna fyrir sig könnun í aðdraganda launahækkunar síðasta árs. Náði könnunin til launa forstjóra og aðalframkvæmdastjóra í stóriðju- og veitustarfsemi annars vegar og hjá fyrirtækjum með yfir 40 milljarða króna árlega veltu hins vegar. Kom þar fram að heildarlaun þessa hóps voru að meðaltali 4.159.000 krónur á mánuði á árinu 2020.

Stjórn OR starfar eftir eigendastefnu OR og um þessi efni segir: „Laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs Orkuveitu Reykjavíkur skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði.“ Launakjör forstjóra OR taka einmitt mið af þessu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×