Viðskipti innlent

Sekta Hörpu eftir að hafa krafið miða­kaupanda um kenni­tölu

Atli Ísleifsson skrifar
Lagt var fyrir Hörpu að láta af söfnun upplýsinga um kennitölur og fæðingardaga í tengslum við miðakaup og eyða slíkum gögnum sem þegar höfðu safnast.
Lagt var fyrir Hörpu að láta af söfnun upplýsinga um kennitölur og fæðingardaga í tengslum við miðakaup og eyða slíkum gögnum sem þegar höfðu safnast. Vísir/Vilhelm

Persónuvernd hefur sektað Hörpu um eina milljón króna í máli þar sem kvartað var yfir söfnun upplýsinga um kennitölu og fæðingardag einstaklings í tengslum við rafræn kaup hans á aðgöngumiða.

Á síðu Persónuverndar segir að um hafi verið að ræða kvörtun yfir vinnslu sem átti sér stað áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar barst hingað til lands og þar með áður en settar voru reglur sem áskildu skráningu persónuupplýsinga í tengslum við viðburðasókn.

Í úrlausn sinni komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið nauðsynlegt að safna upplýsingum um kennitölur og fæðingardag kvartanda í þeim tilgangi að afhenda honum miða. Hægt hefði verið að efna samning um kaupin án þess að til þess kæmi.

„Vinnslan hefði þannig ekki farið fram á grundvelli vinnsluheimildar og ekki samrýmst meginreglum persónuverndarlöggjafarinnar um lögmæti, sanngirni, gagnsæi og lágmörkun gagna. Vinnslan hefði jafnframt brotið gegn sérákvæði laganna um að notkun kennitölu sé háð því að hún eigi sér málefnalegan tilgang og sé nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu.

Lagt var fyrir Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. að láta af söfnun upplýsinga um kennitölur og fæðingardaga í tengslum við kaup einstaklinga á aðgöngumiðum á viðburði á vegum fyrirtækisins, og eyða fyrirliggjandi upplýsingum um kennitölur og fæðingardaga einstaklinga sem safnað hefði verið í þeim tilgangi að auðkenna þá við afhendingu seldra aðgöngumiða.

Stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.000.000 krónur var lögð á Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. Við ákvörðun um fjárhæð sektarinnar hafði það m.a. áhrif til lækkunar að Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. var ekki unnt að breyta framkvæmdinni eftir að settar voru reglur vegna sóttvarna, sem áskildu skráningu persónuupplýsinga í tengslum við viðburðasókn. Þá varð ekki annað séð en að upplýsingunum hefði verið safnað í góðri trú um að vinnslan væri lögmæt,“ segir á vef Persónuverndar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×