Umræðan

Talsmenn hafta hverfa jafnan á öskuhauga sögunnar

Arnar Sigurðsson skrifar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein undir heldur undarlegri fyrirsögn: „Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé“. Hafdís gerir að umtalsefni þá söguskýringu mína að frelsi hygli mörgum á kostnað fárra en að helsið hygli fáum á kostnað margra. 

Framsóknarmenn ættu þó öðrum fremur að skilja þetta lögmál enda byggir flokkurinn tilvist sína á ójöfnu vægi atkvæða, þ.e. skertu kosningafrelsi. Hafdís segir að „söguskýring“ mín á einokunarversluninni sé „býsna einhliða“ sem reyndar er alveg rétt enda hverfa talsmenn hafta jafnan á öskuhauga sögunnar sem er skrifuð af sigurvegurunum.

Samkvæmt eigin könnun ÁTVR fær fimmta hvert ungmenni afgreiðslu án skilríkja

Eins og alltaf þegar frelsið er til umræðu er alið á óttanum til að réttlæta helsið. Til að vernda æskuna er engum betur treystandi til að kanna áfengiskaupaaldur heldur en ÁTVR. Þess má geta að samkvæmt eigin könnun einokunarstofnunarinnar fær fimmta hvert ungmenni afgreiðslu án skilríkja. Öfugt við Hafdísi telur stofnunin hins vegar að sú útkoma sé óásættanleg og skal undir það tekið rétt eins og þegar í ljós kom að unglingar gátu hindrunarlaust verslað á vef stofnunarinnar.

Hafdís segir að „söguskýring“ mín á einokunarversluninni sé „býsna einhliða“ sem reyndar er alveg rétt enda hverfa talsmenn hafta jafnan á öskuhauga sögunnar sem er skrifuð af sigurvegurunum.

Hafdís rökstyður ekki af hverju hún vantreystir öðrum en starfsmönnnum hins opinbera og þá hvort að afgreiðsla enn hættulegri vara eins og lyfja, sprengiefna eða skotfæra sé í óefni en slíkar vörur eru nánast aldrei afgreiddar af ríkisstarfsmönnum.

Almenningur hér á landi þarf auðvitað ekkert á milligöngu Hafdísar eða hennar líkum að halda vegna kaupa á áfengi eða annarri matvöru. Þeir sem hafa hag af helsinu þurfa hins vegar á henni að halda

Þingmaðurinn virðist ekki skilja að meginhlutverk hennar er að tryggja réttindi almennings en ekki skerða þau. Viðskiptafrelsi hefur alltaf verið hagsmunamál fyrir neytendur (reyndar rekum við einmitt Samkeppniseftirlit til að fyrirbyggja fákeppni og einokun). Atvinnufrelsi er skilgreint sem mannréttindi sem þingmaðurinn segir að sér séu „hjartfólgin“.

Almenningur hér á landi þarf auðvitað ekkert á milligöngu Hafdísar eða hennar líkum að halda vegna kaupa á áfengi eða annarri matvöru. Þeir sem hafa hag af helsinu þurfa hins vegar á henni að halda og vita sem er að „það er bara best að kjósa framsókn“.

Höfundur er eigandi netverslunarinnar Santé.


Tengdar fréttir

„Hvað verður um afgreiðslustúlkurnar?“

Kostulegt er að rifja upp rök þeirra sem hæst töluðu gegn lögleiðingu bjórs hér á landi. Bjórinn var meðal annars ekki einkamál eiginmanna því bjórvömbin yrði líka vandamál eiginkvenna og unglingum yrði umsvifalaust drekkt í óreglu. Þjóðin stóð á barmi hengiflugs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×