Innherji

Innrásin í Úkraínu hefur víðtæk áhrif á hrávörumarkaði

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Um 17 prósent af heimsframleiðslu jarðgass kemur frá Rússlandi.
Um 17 prósent af heimsframleiðslu jarðgass kemur frá Rússlandi. Vostok/Getty

Áhrifin sem innrás Rússa í Úkraínu hefur á hrávörumarkaði eru víðtæk og einkennast af töluverðri óvissu sem endurspeglast í miklum sveiflum. Þetta segir Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum, en hann var áður yfir afleiðubók hráolíu hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley.

Brynjólfur bendir á að Rússland sé þriðja stærsta olíuframleiðsluríki heims og, það sem skiptir kannski meira máli í þessu samhengi, einn stærsti útflytjandinn. Þá fær Evrópu um 40 prósent af sínu gasi frá Rússum og rúmlega fjórðung af olíunni. „Þannig að í því tilliti skipta þessi viðskipti miklu máli fyrir heimsálfuna,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum.

Verð á Brent hráolíu hækkaði um nærri 8 prósent í gær - fór upp í 108 Bandaríkjadali á tunnuna og hefur ekki verið hærra frá árinu 2014 - þegar í ljós kom að Bandaríkin og bandamenn þeirra hefðu samþykkt að nýta einungis 60 milljónir olíutunna af varabirgðum sínum, sem er minna en dagsþörf heimshagkerfisins, til þess að róa markaðinn. Á síðustu sjö dögum hefur olíuverð hækkað um rúm 15 prósent.

„Það er ljóst að ekki er um langtímalausn að ræða og virkar slík aðgerð einungis tímabundið ef heimsviðskipti með hrávörur raskast í lengri tíma,“ segir Brynjólfur. 

Vesturlönd hafa náð saman um að útiloka tiltekna rússneska banka frá alþjóðlega greiðslukerfinu SWIFT sem tengir 11 þúsund banka frá fleiri en 200 löndum. Brynjólfur segir markaðsaðila telja að þessi aðgerð geti haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir hrávöruviðskipti.

„Þau eru flest framkvæmd í dollurum og treysta þeir sem stunda þessi viðskipti á auðvelda og trygga greiðslumiðlun. Jafnframt hafa bankar víða um heim lokað fyrir fjármögnun viðskipta með hrávörur Rússa,“ segir Brynjólfur.

Einnig er viðbúið að stríðið hafi veruleg áhrif á skipaflutninga, ekki síst um Svartahaf. Nú þegar hafa tvö stærstu skipafélög heim, MSC og Maersk, tilkynnt að þau hafi hætt gámaflutningum til og frá Rússlandi, og Brynjólfur segir að flutningsaðilar gætu verið tregir til að ferðast nálægt átakasvæðum. Tryggingagjöld fyrir flutninga gætu þannig hækkað.

Þá bendir hann á að Úkraína og Rússland séu auðug af málmum og ræktarlandi en heimsmarkaðsverð á hveiti hefur til að mynda hækkað um 26 prósent á síðustu sjö dögum. „Þar að auki er jarðgas notað í áburð þannig að óbein áhrif af hækkandi orkuverði gætu komið fram í hærra verði á matvöru.“


Tengdar fréttir

Óvissa umlykur mikilvægan markað fyrir íslenskar uppsjávarafurðir

Útflutningshagsmunir Íslands í Úkraínu hafa aukist verulega á síðustu árum. Íslensk sjávarútvegsfélög, sem hafa aukið sölu þangað með beinum og óbeinum hætti til að fylla í skarð Rússlands, geta þurft að koma afurðum sínum í verð á öðrum mörkuðum á meðan óvissa umlykur Úkraínumarkað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.