Innherji

Verðbólgan hækkar í 6,2 prósent, talsvert umfram spár greinenda

Hörður Ægisson skrifar
Bankarnir höfðu meðal annars spáð því að innfluttur verðbólguþrýstingur yrði þrálátari en áður var talið.
Bankarnir höfðu meðal annars spáð því að innfluttur verðbólguþrýstingur yrði þrálátari en áður var talið. Vísir/Vilhelm

Verðlag hélt áfram að hækka í þessum mánuði og tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,2 prósent borið saman við 5,7 prósent í janúar. Verðbólgan fór síðast yfir 6 prósent í apríl árið 2012.

Þetta kemur fram í nýjum verðbólgutölum sem Hagstofan birti í morgun en vísitala neysluverðs hækkaði um 1,16 prósent frá fyrri mánuði. Ef húsnæði er undanskilið, sem hefur hækkað um meira en 20 prósent síðasta eina árið, þá hefur vísitalan hækkað um 4,2 prósent á undanförnum tólf mánuðum.

Hækkun verðbólgunnar í febrúar er nokkuð meiri en spár greinenda höfðu gert ráð fyrir.

Spár greiningadeilda bankanna höfðu þannig legið á bilinu 5,8 prósent og 6,1 prósent á ársgrundvelli. Töldu þær að útlit væri fyrir að innfluttur verðbólguþrýstingur yrði þrálátari en áður var talið og að áfram verði spenna á fasteignamarkaði.

Fram kemur í tölum Hagstofunnar að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 7,5 prósent, sem hafði áhrif á vísitöluna til hækkunar upp á 0,47 prósent, og þá jókst kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,2 prósent, sem skilaði sér í hækkun vísitölunnar upp á 0,22 prósent.

Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 0,8 prósent í febrúar og bensín og olíur um 3,6 prósent. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu hins vegar um 9,7 prósent.

Skömmu eftir að greiningardeildir bankanna komu fram með spár sínar um verðbólgu í febrúar birtust nýjar tölur um vísitölu íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið sem sýndu að hún hækkaði um 1,7 prósent milli mánaða, umtalsvert meira en gert var ráð fyrir. Það þýddi að árshækkun íbúðaverðs var komin rétt yfir 20 prósent.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, sagði í viðtali við Innherja af því tilefni að þær tölur um hækkun íbúðaverðs væru til þess fallnar að „lyfta upp“ verðbólguspám fyrir næstu mánuði og með þessu áframhaldi gæti verðbólga farið upp í 7 prósent áður en hún tekur að hjaðna.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Samkvæmt nýrri verðbólguspá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent út þriðja ársfjórðung.

Í fundargerð peningastefnunefndarinnar, sem var gerð opinber síðasta miðvikudag, kom meðal annars fram að hún hefði á fundi sínum viðrað áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum“. Afleiðingarnar gætu birst í meiri og almennari verðhækkunum á vöru og þjónustu til þess að bregðast við auknum innfluttum verðbólguþrýstingi og hærri launakostnaði sem gæti „framkallað hringrás verðlags- og launahækkana.“

Nefndarmenn voru allir á þeirri skoðun að hækka þyrfti vexti og var á fundinum rætt um hækkun á bilinu 50 til 100 punkta.

Helstu rök nefndarinnar fyrir því að taka stærra skref í vaxtahækkun voru þau að verðbólguhorfur væru dekkri og útlit fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í 2,5 prósenta markmið bankans en áður var búist við. Í kjölfar vaxtahækkunar bankans nú í 2,75 prósent yrðu meginvextir bankans komnir á svipað stig og þeir voru þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020 en umsvif í þjóðarbúskapnum væru jafnvel kröftugri nú en þá.


Tengdar fréttir

Heildsölur hafa ekki séð viðlíka hækkanir á einu bretti

Stærstu heildsölur landsins hafa ekki séð á eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×