Innherji

Prófkjörsslagur Innherja: Þórdís Jóna og Þórdís Lóa bítast um fyrsta sætið

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þórdís Jóna vs Þórdís Lóa

Nöfnurnar og flokkssysturnar Þórdís Jóna Sigurðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sitjandi oddviti Viðreisnar í borginni, heyja nú baráttu um oddvitasætið í fyrsta prófkjöri Viðreisnar sem fram fer dagana 4.-5. mars. Þórdís Lóa er gjarnan kölluð Lóa og verður kölluð það í greininni, til að aðgreina frambjóðendur.

Þórdís Jóna segir eina helstu áskorun borgarinnar vera tortryggni og vantraust atvinnulífsins gagnvart borgarkerfinu. Hún segir Viðreisn þurfa að stækka og treystir sér til að leiða það verkefni.

Lóa segist vilja einfaldari og betri borg. Hún telur yfirgripsmikla reynslu sína og þekkingu á pólitíkinni, rekstrinum og innviðum borgarinnar muni fleyta sér langt.

Þórdís Jóna telur sig réttu manneskjuna til að leiða Viðreisn í borginni. „Viðreisn þarf að stækka og ég tel mig getað stækkað Viðreisn. Ég er rétta manneskjan til að leiða stefnu Viðreisnar í borginni og það er brýnt að koma þeirri stefnu í framkvæmd. Sköpum réttlátt samfélag, þar sem almannahagsmunir ganga framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis,” segir hún.

„Atvinnulífið hefur um langt skeið gefið borginni falleinkunn í samskiptum og þjónustu. Þarna er mikið svigrúm til að gera betur," segir Þórdís Jóna.

Atvinnulífið gefi borginni falleinkunn

Þórdís Jóna hafi sýnt það sem stjórnandi að hún hlusti eftir hugmyndum, komi verkefnum í framkvæmd og fylgi þeim eftir. „Það er brýnt að efla traust á milli atvinnulífs og borgar og að bregðast við ákalli atvinnulífsins um skilvirkari þjónustu. Atvinnulífið hefur um langt skeið gefið borginni falleinkunn í samskiptum og þjónustu. Þarna er mikið svigrúm til að gera betur,” segir hún og vill nálgast málefni borgarinnar með nýjum áherslum.

„Það þurfa að eiga sér stað grundvallarbreytingar sem fela í sér valdeflingu starfsfólks og þeirra sem njóta þjónustu Reykjavíkurborgar. Við þurfum meiri gæði í þjónustu sem er sérsniðin að þörfum notendanna. Þær almennu leiðir sem eru notaðar til að mæta börnum, fjölskyldum og borgarbúum duga ekki lengur til. Það má segja að mínar áherslur felist í reynslu minni og trúverðugleika í stjórnun og umbreytingarverkefnum. Það þarf ekki fleiri stefnur eða embættismenn – það þarf aðgerðir.”

Lóa segist njóta trausts og hafa þekkingu á málefnunum

Lóa segir reynslu sína og þekkingu á pólítík, rekstri og innviði borgarinnar yfirgripsmikla. „Sem hefur þau áhrif að ég hef betri tök á því að lenda hlaupandi og halda áfram að lyfta stefnu og sýn Viðreisnar. Ég nýt mikils trausts meðal flokkanna í borginni enda hef ég einstakt lag á að samþætta ólík sjónarmið og ná árangri með þau verkefni sem við í Viðreisn stöndum fyrir. Borgin er eini staðurinn þar sem Viðreisn er í meirihluta og spilar lykilhlutverk enda hef ég verið staðgengill borgarstjóra undanfarin ár og formaður borgarráðs.”

„Ég nýt mikils trausts meðal flokkanna í borginni enda hef ég einstakt lag á að samþætta ólík sjónarmið og ná árangri með þau verkefni sem við í Viðreisn stöndum fyrir," segir Lóa

Lóa segir áherslur Viðreisnar vera einfaldari og betri borg fyrir öll. „Því náum við með kröftugu samtali við borgarbúa og milli flokkanna sem stýra borginni. Við í Viðreisn höfum einstakt tækifæri til að byggja þessa brú - milli stjórnmála og borgarbúa en ekki síður að byggja brú milli þeirra flokka sem starfa í borginni enda er það grundvöllur heilbrigðs lýðræðis . Þar hef ég náð miklum árangri á síðastliðnum fjórum árum,” segir hún.

Þórdís Jóna og Lóa vilja báðar fá tækifæri til að starfa fyrir hönd Viðreisnar í Ráðhúsi Reykjavíkur næstu fjögur árin.Vísir/Vilhelm

Hún vill tryggja aukið val og frelsi fyrir borgarbúa. „Það þýðir aðgang að góðri þjónustu. Þar er stafræn umbreyting lykilþáttur ásamt því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana sveigjanlegri. Þar höfum við náð miklum árangri á síðustu árum og þurfum að halda áfram á þeirri vegferð.”

Lóa leggur enn fremur áherslu á skýra sýn í fjármálum. „Enda höfum við innleitt fyrstu fjármálastefnu borgarinnar. Við höfum lækkað fasteignaskatta á fyrirtæki og eigum heilmikið verk framundan í fyrirtækjum borgarinnar að kjarna innviði og aðgreina samkeppnisrekstur frá,” segir hún.

Byggja þarf brú á milli borgar og atvinnulífs og ákveða hvaða aðgerðir miða að því. Traust og gott atvinnulíf skapar verðmæti og einfaldar lífið," segir Þórdís Jóna

Færri stefnur og fleiri aðgerðir segir mótframbjóðandinn

Mótframbjóðandinn, Þórdís Jóna, leggur hins vegar áherslu á færri stefnur og fleiri aðgerðir. „Ein helsta áskorun borgarinnar er tortryggni og vantraust atvinnulífsins gagnvart borginni. Enn fremur er kvartað undan flókinni og ógagnsærri þjónustu borgarinnar við atvinnulífið. Þessi staða sýnir að lífsnauðsynlegt er að efla traust atvinnulífsins á borginni. Byggja þarf brú á milli borgar og atvinnulífs. Traust og gott atvinnulíf skapar verðmæti og einfaldar lífið,” segir Þórdís Jóna.

Góð atvinnustefna sveitarfélaga miði að því að örva og efla sjálfstæð fyrirtæki, að verk séu unnin á gagnsæjan og hagkvæman hátt fyrir hið opinbera í gegnum vel skilgreind útboð. „Ekki með því að stjórnsýslan þenjist út og dragi þar með þrótt út atvinnulífinu með því að sækja þaðan hæft starfsfólk. Góð atvinnustefna stuðlar að hagkvæmni, einföldun og skilvirkni fyrir hið opinbera og fyrir einkaaðila,” segir Þórdís Jóna.

Hún vill sjá stjórnun og valdeflingu sem miðar að því að auka völd og áhrif starfsfólks sem raunverulega vinnur verkefnin. „Fækka milliliðum með beinni aðkomu starfsfólksins sjálfs. Þessi nálgun leiðir til virðingu gagnvart öllum störfum í kerfinu og fyrir þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og er því ekki síst mikilvægt þegar um er að ræða þjónustu sem snýr að velferð barna, aldraða og fatlaðs fólks. Þannig fáum við bestu hugmyndirnar og séu þær virkjaðar fást bestu lausnirnar.”

„Með því að bæta nærþjónustu í hverfum borgarinnar er hægt að draga úr sóun á tíma fólks, minnka kolefnisfótsporið en um leið skapa líflegri hverfi sem bæta lífsgæði fólks og einfalda daglegt líf þess," segir Þórdís Jóna

Þórdís Jóna segist vera „urbanisti“ á sama tíma og hún styðji fjölbreytileika. „Blómlegt atvinnulíf er lykilþáttur í að mynda sjálfbær og lífleg hverfi þar sem fólk þarf ekki notast við einkabíl til að sinna öllum verkefnum daglegs lífs. Með því að bæta nærþjónustu í hverfum borgarinnar er hægt að draga úr sóun á tíma fólks, minnka kolefnisfótsporið en um leið skapa líflegri hverfi sem bæta lífsgæði fólks og einfalda daglegt líf þess,” segir hún.

Ómálefnaleg gagnrýni erfiðust sitjandi oddvita

Lóa segir það leiðinlegasta við starf borgarfulltrúans vera hvað kerfið getur verið þungt í vöfum. „Það að hafa áhrif til góðs í kerfi sem er jafn stórt eins og Reykjavíkurborg getur stundum verið þungt í vöfum og tekur stundum lengri tíma en ég myndi óska mér. Í því leynast þó tækifæri og höfum við horft sérstaklega til þess að einfalda allt kerfið, stórauka stafræna þjónstu og fleira sem miðar að því að hraða öllu slíku. Ómálefnaleg gagnrýni og gagnrýni sem fer í manneskjuna frekar en málefnin er eitthvað sem mér hefur einnig þótt erfitt á þessu kjörtímabili,” segir hún.

„En lykillinn að árangri og að ná að samþætta ólík sjónarmið er uppbyggileg gagnrýni sem miðar að málefnum í stað þess að ráðast að manneskjum," segir Lóa

„Ekkert er hafið yfir gagnrýni og minnihluti gegnir sannarlega mikilvægi aðhaldi við meirihluta í pólitík eðli málsins samkvæmt. En lykillinn að árangri og að ná að samþætta ólík sjónarmið er uppbyggileg gagnrýni sem miðar að málefnum í stað þess að ráðast að manneskjum.”

Á sama tíma segir Lóa starf borgarfulltrúa krefjandi, fjölbreytt og gefandi. „Við stöndum á ákveðnum tímamótum í Reykjavík þar sem loftslagsmál verða áfram í brennidepli, það verður stóraukið val í samgöngumátum í borginni, stafræn þjónusta að stóraukast og ný borgarhverfi að mótast og rísa. Mér finnst afar gaman að fá tækifæri til að móta borgarsamfélagið í átt að nútímalegri borg sem laðar fram það besta í fólki,” segir hún.

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í Reykjavík þar sem loftslagsmál verða áfram í brennidepli, það verður stóraukið val í samgöngumátum í borginni, stafræn þjónusta að stóraukast og ný borgarhverfi að mótast og rísa," segir Lóa

Þórdís Jóna vill heyra frá íbúum hverfanna

Mótframbjóðandi hennar, Þórdís Jóna, segist ekki geta beðið eftir að breyta hlutverki og einfalda starf borgarfulltrúans. „Og hætta að vinna endalausar stefnur sem ná ekki að verða innleiddar. Frekar að hafa stefnurnar færri með skýrum markmiðum, skýrri ábyrgð, tímaramma, aðgerðum og eftirfylgni,” segir hún.

„Ég hef einlægan áhuga á hugmyndum fólks og hlakka til að heyra og sjá fólkið sem vinnur störfin fyrir borgina og hvaða leiðir þau finna til að leysa málin. Ég vil heyra frá íbúum hverfanna hvernig það vill sjá verkin unnin.”

„Ég held að það sé afskaplega leiðinlegt fyrir stjórnmálamenn að verða óvart embættismenn,” segir Þórdís Jóna

Mikilvægustu verkin verði ekki til hjá snjöllum einstaklingum heldur með samstarfi og samvinnu. „Stjórnsýslan hefur fjarlægst líf borgarbúa og virðist stundum snúast meira um sjálfa sig en annað. Nærtækt er að nefna að hvernig litið er á skólastarf og allar þær stefnur sem samdar eru í ráðhúsinu. Þær bera með sér lítinn skilning á því starfi sem unnið er með börnum. Það væri nær að hafa stefnuna einfalda – mæta öllum börnum. Síðan þarf allt kerfið að vinna í þá átt. Þú sem stjórnandi í skóla og kennari með margra ára nám á baki átt að hafa traust borgarfulltrúa til að vita betur en þau.”

„Ég held að það sé afskaplega leiðinlegt fyrir stjórnmálamenn að verða óvart embættismenn,” segir Þórdís Jóna, sem segist brenna fyrir sýn Viðreisnar um réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum.

„Og allar manneskjur, heimili og fyrirtæki njóti jafnræðis. Það er framtíðarsýnin sem ég vil vinna að sem leiðtogi og er sannfærð um að eigi að vera leiðarljós farsæls samfélags.”

Áður en Viðreisn varð til hafi vantað flokk með skýra sýn á jafnrétti og réttlátt samfélag. „Sem gerir líka kröfu um kröftugt efnahagslíf og ábyrga fjármálastjórnun. Eftir þeim gildum vil ég starfa í stjórnmálum.”

Lóa hefur verið í Viðreisn frá því flokkurinn var stofnaður. „Gildin og menningin höfðuðu strax til mín. Við í Viðreisn erum frjálslynd, jafnréttis- og umhverfissinnuð og viljum skapa réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum og einstaklingar og fyrirtæki njóta jafnræðis,” segir Þórdís Lóa.

Á næstu dögum og vikum mun Innherji birta prófkjörsslagi  úr spennandi prófkjörum og forvölum ýmissa flokka sem eiga sér stað í sveitarfélögunum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×