Innherji

Allir studdu 75 punkta vaxtahækkun, óttast „hringrás verðlags- og launahækkana“

Hörður Ægisson skrifar
Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi voru vextir Seðlabankans hækkaðir úr 2 prósentum í 2,75 prósent og eru þeir nú komnir á sama stað og þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020.
Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi voru vextir Seðlabankans hækkaðir úr 2 prósentum í 2,75 prósent og eru þeir nú komnir á sama stað og þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands viðraði áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum“ á fundi sínum í byrjun þessarar mánaðar. Afleiðingarnar gætu birst í meiri og almennari verðhækkunum á vöru og þjónustu til þess að bregðast við auknum innfluttum verðbólguþrýstingi og hærri launakostnaði sem gæti „framkallað hringrás verðlags- og launahækkana.“

Þetta kemur fram í nýbirtri fundargerð peningastefnunefndar en þar segir að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að vextir yrðu hækkaðir úr 2 prósentum í 2,75 prósent.

Nefndarmenn voru allir á þeirri skoðun að hækka þyrfti vexti og var á fundinum rætt um hækkun á bilinu 50 til 100 punkta. Verðbólguhorfur höfðu versnað töluvert frá nóvemberfundi hennar og mældist verðbólga 5,7 prósent í janúar. Undirliggjandi verðbólga hafði einnig aukist, og mældist ríflega 4 prósent, og þá höfðu verðbólguvæntingar hækkað á suma mælikvarða. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári.

Helstu rök nefndarinnar fyrir því að taka stærra skref í vaxtahækkun voru þau að verðbólguhorfur væru dekkri og útlit fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í 2,5 prósenta markmið bankans en áður var búist við. Í kjölfar vaxtahækkunar bankans nú í 2,75 prósent yrðu meginvextir bankans komnir á svipað stig og þeir voru þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020 en umsvif í þjóðarbúskapnum væru jafnvel kröftugri nú en þá.

„Eðlilegt væri að nú þegar efnahagsbati væri hafinn, framleiðsluslaki líklega horfinn og útlit fyrir að atvinnuleysi héldi áfram að minnka að þá yrði stigið fastar til jarðar til að bregðast við þrálátri aukningu verðbólgu, versnandi verðbólguhorfum og hækkun verðbólguvæntinga. Raunvextir hefðu þar að auki lækkað töluvert milli funda nefndarinnar og nauðsynlegt væri að hækka vexti nokkuð til að auka aðhaldsstig peningastefnunnar,“ segir í fundargerð nefndarinnar.

Rök peningastefnunefndarinnar fyrir því að taka minna skref, og hækka vextina í 2,5 prósent, voru þau að á nóvemberfundi hennar var aukning verðbólgu viðbúin þótt hún hafi reynst meiri en gert var ráð fyrir. Þá var bent á að enn væri hluti verðhækkana tengdur afleiðingum farsóttarinnar og utan áhrifasviðs peningastefnunnar og myndu áhrifin af þeim fjara út á næstu misserum.

„Þá kom fram að stærri hluti heimila væri með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og því myndu áhrif vaxtahækkana koma hraðar fram en áður fyrr. Einnig ættu áhrifin af beitingu þjóðhagsvarúðartækja frá því um mitt ár í fyrra enn eftir að koma að fullu fram og áhrif hámarks á greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána færu ekki að koma fram fyrr en liði á þetta ár,“ að því er fram kemur í fundargerðinni, og vegna þessara þátta væri því betra að taka minna skref í hækkun vaxta.

Í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund bankans fyrir tveimur vikum síðan sagði seðlabankastóri að verðbólgan sem mældist núna væri að reynast meiri og þrálátari en spár höfðu gert ráð fyrir og við því þyrfti að bregðast með því að draga úr eftirspurn í hagkerfinu.

Þá neitaði Ásgeir því að bankinn hefði farið of bratt í vaxtalækkunarferlið í upphafi faraldursins þegar vextir fóru niður í 0,75 prósent – markmiðið hafi verið að örva einkaneysluna og verja kaupmátt heimilanna þegar stærsti útflutningsatvinnuvegurinn þurrkaðist út – en viðurkenndi að mögulega mætti gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki að byrjað að hækka vexti hraðar þegar hagkerfið var farið að taka við sér.

„Við byrjuðum vaxtahækkunarferlið um vorið á síðasta ári en kannski hefðum við átt að fara fyrr af stað og hækka vextina meira,“ sagði Ásgeir.

Aðspurður hvort peningastefnunefndin hafi rætt um að hækka vexti enn meira í þetta sinn sagði seðlabankastjóri að 75 punkta hækkun „ágætis herðingu á aðhaldsstiginu“ en síðan muni koma í ljós hvaða áhrif hún hafi og hvort það takist að ná tökum á íbúðamarkaðnum sem hefur einkum drifið áfram verðbólguna. Horft fram á við sé það vinnumarkaðurinn sem er „aðalmálið,“ að sögn Ásgeirs, enda sé það launakostnaðurinn sem skipti mestu fyrir verðbólguhorfurnar til lengri tíma litið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×