Viðskipti innlent

Reykjavíkurborg styrkir Hringiðu um rúmar tíu milljónir

Jakob Bjarnar skrifar
Gömlu samherjarnir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Soffía undirrita samning borgarinnar og Icelandic Startups þar sem Kristín Soffía er nú framkvæmdastjóri. 
Gömlu samherjarnir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Soffía undirrita samning borgarinnar og Icelandic Startups þar sem Kristín Soffía er nú framkvæmdastjóri.  Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Soffía Jónsdóttir framkvæmdastjóri Icelandic Startups undirrituðu í morgun samstarfssamning sem miðar að því að efla frumkvöðlastarfsemi sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Þetta segir í sérstakri í tilkynningu frá Bjarna Brynjólfssyni upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar en hæg eru heimatökin því Kristín Soffía er fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar en hætti í fyrra til að hefja störf hjá Icelandic Startups.

Í tilkynningunni kemur fram að borgin skuldbindi sig til að greiða 10 milljónir vegna framkvæmdar á hinum svokallaða viðskiptahraðli eða Hringiðu og svo 2.5 milljónir króna vegna Gulleggsins sem er elsta og stærsta frumkvöðlakeppni landsins.

„Markmið samningsins er að efla frumkvöðlastarfsemi og veita Reykjavíkurborg tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stuðningsverkefna við nýsköpun m.a. með það fyrir augum að hvetja til nýrra lausna á áskorunum sem borgin stendur frammi fyrir.“

Í tilkynningunni er vitnað í Kristín Soffía sem segir mikla grósku í nýsköpun á Íslandi:

,,Heildarfjármögnun Icelandic Startups nam í fyrra um 140 milljónum króna en á sama tíma hafa þau fyrirtæki sem tóku þátt í okkar verkefnum safnað yfir 600 milljónum í fjármögnun. Það þýðir að hver króna skilar sér fjórfalt til baka. Auk þess vinna fjölmörg þessara fyrirtækja að lausnum á aðsteðjandi loftlagsvanda og má þar nefna IceWind, Hemp Pack og SoGreen sem dæmi svo ávinningur er mikill.“

Samningurinn mun vera til tveggja ára og var undirritaður í kaffihléi á fundi Reykjavíkurborgar um Græna planið og grænar fjárfestingar sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.