Innherji

Skeljungur bætti við hlut sinn í móðurfélagi Heimkaupa

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson kemur nýr inn í stjórn Wedo.
Jón Ásgeir Jóhannesson kemur nýr inn í stjórn Wedo. vísir/vilhelm

Skeljungur er kominn með þriðjungshlut í Wedo ehf., móðurfélagi Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is, eftir að hafa tekið þátt í hlutafjáraukningu félagsins í janúar. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Skeljungs.

Í liðnum janúarmánuði var tekin ákvörðunum að taka þátt í hlutfjáraukningu Wedo en um var að ræða fjárfestingu að fjárhæð 222 milljónir króna. Skeljungur, sem átti 25 prósenta hlut í Wedo, fer með 33 prósent í kjölfar hlutafjáraukningarinnar. Aðrir stórir hluthafar í vefverslanafélaginu eru Norvik, fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar, og Draupnir fjárfestingafélag, sem er félag Jóns Diðriks Jónssonar, eiganda Senu.

Eftir hlutafjáraukninguna kom Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, nýr inn í stjórn Wedo. Hann kom í stað Hjalta Baldurssonar sem hefur tekið við sem framkvæmdastjóri vefverslanafélagsins.

Í ársreikningnum kemur einnig fram að hlutdeild Skeljungs í afkomu Wedo á síðasta ári, á meðan Skeljungur átti 25 prósenta hlut, hafi verið neikvæð um 211 milljónir króna. Gefur það til kynna að Wedo hafi tapað meira en 800 milljónum króna í fyrra. Wedo sendi tilkynningu til fyrirtækjaskrár í janúar þar sem fram kemur að félagið hafi lækkað hlutafé um 1,6 milljarða króna til jöfnunar taps.

Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna í fyrra og hefur hagnaður fyrirtækisins aldrei verið meiri á einu ári. Til stendur að gera félagið að fjárfestingafélagi og breyta nafni þess í SKEL Fjárfestingafélag.

Töluverð umbreyting varð á efnahagi Skeljungs á síðasta ári. Í lok árs gekk Skeljungur frá sölu á hinu færeyska Magni til Sp/f Orkufélagsins fyrir 12,2 milljarða króna en skuldbatt sig jafnframt til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns.


Tengdar fréttir

Methagnaður hjá Skeljungi sem verður SKEL Fjárfestingafélag

Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna í fyrra og hefur hagnaður fyrirtækisins aldrei verið meiri á einu ári. Til stendur að gera félagið að fjárfestingafélagi og breyta nafni þess í SKEL Fjárfestingafélag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×