Innherji

Dagur í lífi Sigmars: „Ekkert betra en fyrsti bolli dagsins"

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigmar tók meðvitaða ákvörðun fyrir nokkrum árum að hætta að mestu að leiðrétta fólk sem hefur á röngu að standa á internetinu og segir lífsgæði sín hafa aukist mikið fyrir vikið.
Sigmar tók meðvitaða ákvörðun fyrir nokkrum árum að hætta að mestu að leiðrétta fólk sem hefur á röngu að standa á internetinu og segir lífsgæði sín hafa aukist mikið fyrir vikið.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir nýja starfið á þinginu gjörólíkt gamla starfinu á RÚV. Fundarharkan sé talsvert meiri. Hann segir frúnna með mikið keppnisskap og ekki sætta sig við að tapa á spilakvöldum fjölskyldunnar. 

7:30 Á virkum dögum vakna ég yfirleitt um hálf átta enda fer fjölskyldan öll á stjá um það leiti. Allra fyrsta verkefnið er að koma koffíni inn í kerfið enda ekkert betra en fyrsti bolli dagsins. Hann er bæði sterkur og hressilegur í magni. 

Síðan er að gera börnin klár fyrir fyrir daginn. Græja nesti fyrir Krumma og sendi hann af stað korter yfir átta. Flesta daga hjóla ég með Kötu á rafmagnshjólinu mínu í leikskólann. Þaðan hjóla ég svo í vinnuna og tekur þessi rúntur alls um 25 mínútur. Þessi ferðamáti tryggir að ég er vel vaknaður og ferskur þegar fundir hefjast á nefndarsviði Alþingis upp úr níu. Og veitir ekki af í mínu tilviki. Mæti nógu tímalega á nefndarsviðið til að borða smá morgunmat áður en vinnan hefst.

Allra fyrsta verkefnið er að koma koffíni inn í kerfið enda ekkert betra en fyrsti bolli dagsins. Hann er bæði sterkur og hressilegur í magni.

9:10 Ég á sæti í tveimur fastanefndum Alþingis. Allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndarstörfin eru mjög ólík þeirri vinnu sem almenningur sér úr þingsalnum og jafnframt mjög skemmtileg og áhugaverð. Við vorum á fjarfundum þegar Covid reglurnar voru sem harðastar. Ég geri mér grein fyrir því að þeir voru nauðsynlegir og að miklar framfarir geta tengst þessu nýja fundarformi, en maður lifandi hvað þeir eru miklu leiðinlegri en venjulegir fundir í raunheimum.

Sigmar ásamt fjölskyldu sinni. Júlíana og Sigmar giftu sig í fyrra. Börnin eru Krummi og Kata.

11:00 Fundunum lýkur yfirleitt um ellefuleytið og eftir það er allur gangur á hvernig tíminn nýtist. Suma daga næ ég að hendast á æfingu í kringum hádegið, en oft fer þessi tími í símtöl, fundi með fólki eða lestur og skrif sem tengjast þingstörfunum. Langoftast borða ég í mötuneyti Alþingis enda er það mjög gott en stöku sinnum er eitthvað gripið á hlaupum eða sest niður á veitingastað með vinnufélögum.

Við vorum á fjarfundum þegar Covid reglurnar voru sem harðastar. Ég geri mér grein fyrir því að þeir voru nauðsynlegir og að miklar framfarir geta tengst þessu nýja fundarformi, en maður lifandi hvað þeir eru miklu leiðinlegri en venjulegir fundir í raunheimum.

13:00 Tvisvar í viku eru þingflokksfundir á þessum tíma og í framhaldi af þeim hefst svo þingfundur klukkan 15. Ég er svolítið að fatta á meðan ég skrifa þetta að líf mitt hefur breyst í einn samfelldan fund eftir að ég skipti um starfsvettvang. Það var ekki svona mikil fundarharka á RÚV. Gjörólíkir vinnustaðir, eðli máls samkvæmt, en eiga það þó sameiginlegt að málefni samfélagsins í víðasta skilningi eru undir í starfinu.

Sigmar og Júlíana stunda mikla útivist, meðal annars fjallgöngur og utanvegahlaup.

16:00 Engir tveir dagar eru eins í þessu. Þingfundir standa oft yfir fram yfir kvöldmat og jafnvel lengur á þriðjudögum. Þingflokkurinn skiptir með sér verkum og það fer eftir því hvaða mál eru til umfjöllunar hversu langur vinnudagurinn verður. 

Stundum næ ég að hjóla í leikskólann og sækja Kötu. Hún er alltaf alsæl með það enda finnst henni miklu skemmtilegra að fara í og úr leikskóla á hjóli en í bíl. Stundum fer ég aftur niður í þing ef verkefni dagsins raðast þannig eða næ að vera með fjölskyldunni til lok dags. 

Mesta fjörið er yfirleitt þegar við fjögur setjumst niður og spilum. Það er mikil keppnisharka í mínu fólki, ekki síst Júlíönu, eiginkonu minni, sem sættir sig almennt ekki við að tapa fyrir fjögurra og átta ára gömlum börnum í Lúdó. Eða Yatsí. Eða skítakalli. 

Einstaka sinnum næ ég að hlaupa eða æfa á þessum tíma og svo er auðvitað hugað að búðarferðum, kvöldmat og þessum hefðbundnu fjölskylduverkum.

Sigmar hefur verið mjög áberandi í starfi sínu sem þingmaður síðan hann var kosinn á þing síðastliðið haust. Hann segir starfsvettvanginn gjörólíkan því sem hann kynntist á RÚV, hvar hann starfaði áður.

20:00 Um þetta leiti byrjum við að koma börnunum í ró. Það gengur ákaflega misvel eins og allir foreldrar þekkja. Það hefst nú alltaf á endanum. Virku kvöldin eru nokkuð svipuð. Ég og Júlíana slökum oft á yfir einhverju sjónvarpsefni. Stundum eitthvað óskaplega vandað og gott á skjánum en ég ætla ekki að neita því að það kemur fyrir að einhverjar seríur rúlla í gegn sem maður játar ekki opinberlega að hafa horft á. 

Mesta fjörið er yfirleitt þegar við fjögur setjumst niður og spilum. Það er mikil keppnisharka í mínu fólki, ekki síst Júlíönu, eiginkonu minni, sem sættir sig almennt ekki við að tapa fyrir fjögurra og átta ára gömlum börnum í Lúdó. Eða Yatsí. Eða skítakalli.

Sum kvöld fara í undirbúning fyrir vinnuna daginn eftir, þá oftast lestur á einhverju sem tengist þinginu og tilheyrandi skrif. Stundum ver ég kvöldunum í tölvunni við að horfa á heimildarmyndir eða heimildaþætti um hin fjölbreyttustu mál. Það getur verið eitthvað úr mannkynssögunni, vísindatengt eða annað þessháttar efni. 

Það er að mestu liðin tíð að ég eyði kvöldunum í að leiðrétta eitthvað fólk á internetinu sem hefur á röngu að standa. Ég tók meðvitaða ákvörðun fyrir nokkrum árum að hætta því að mestu og lífsgæðin hafa aukist verulega í kjölfarið.

Sum kvöld sofna ég snemma. Það þýðir um ellefu í mínu tilviki en önnur kvöld er það miðnættið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×