Umfjöllun: Ísland - Noregur 33-34 | Naumt tap eftir hetjulega frammistöðu

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Elvar Örn Jónsson hefur sjaldan eða aldrei leikið betur í landsleik en í dag.
Elvar Örn Jónsson hefur sjaldan eða aldrei leikið betur í landsleik en í dag. getty/Nikola Krstic

Noregur vann Ísland, 33-34, í leiknum um 5. sætið á EM í handbolta karla í dag. Harald Reinkind skoraði sigurmark Norðmanna með síðasta kasti leiksins. Noregur tryggði sér ekki bara 5. sætið með sigrinum heldur einnig sæti á HM á næsta ári.

Íslenska liðið getur samt gengið hnarreist frá borði eftir frábæra frammistöðu í dag og frábært mót. Niðurstaðan er 6. sæti sem er besti árangur íslenska liðsins á stórmóti síðan 2014. Þetta er jafnframt fjórði besti árangur Íslands á EM frá upphafi.

Norðmenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum. Þeir virkuðu ferskari enda fengu þeir auka hvíldardag fyrir leikinn.

En Íslendingar fundu kraft og mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Með mikilli baráttu og góðum leik jöfnuðu þeir og frá því í stöðunni 24-24 var jafnt á öllum tölum.

Í lokasókn Íslands í venjulegum leiktíma var dæmd lína á Bjarka Má Elísson. Noregur fór í sókn en Sander Sagosen tapaði boltanum. Elvar Örn Jónsson kastaði boltanum í átt að tómu marki Norðmanna en hann fór hárfínt framhjá. Því þurfti að framlengja.

Sander Sagosen skoraði átta mörk fyrir Noreg.getty/ Kolektiff Images

Þar hélt jafnræðið áfram og aldrei munaði meiru en einu marki á liðunum. En á endanum höfðu Norðmenn sigur með minnsta mun, 33-34.

Selfyssingarnir Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason og Elvar Örn Jónsson drógu sóknarvagninn hjá Íslandi og skoruðu samtals 24 mörk. Ómar Ingi átti enn einn stórleikinn á mótinu og skoraði tíu mörk. Janus átti líklega sinn besta landsleik og skoraði átta mörk, þar af fjögur í framlengingunni.

Elvar Örn skoraði sex mörk og var magnaður í vörninni líkt og Ýmir Örn Gíslason. Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk og markverðir Íslands vörðu samtals sextán skot. Sagosen skoraði átta mörk fyrir Noreg og Reinkind sex.

Erfiður fyrri hálfleikur

Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Norðmenn undirtökunum. Þeir breyttu stöðunni úr 3-3 í 3-6 og leiddu það sem eftir lifði leiks.

Viktor Gísli Hallgrímsson var í miklum ham í upphafi leiks og varði sex af fyrstu tólf skotunum sem hann fékk á sig. Íslenska vörnin var hins vegar mun slakari en í síðustu leikjum.

Norðmenn spiluðu góðan sóknarleik, voru duglegir að finna Thomas Solstad á línunni og töpuðu boltanum aðeins einu sinni í fyrri hálfleik. Á meðan töpuðu Íslendingar boltanum fjórum sinnum, allt snemma í fyrri hálfleik.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði allt hvað af tók í upphafi leiks.getty/Kolektiff Images

Skotnýtingin var góð framan af fyrri hálfleik en Kristian Sæverås fann sig betur í norska markinu eftir því sem á leið og varði meðal annars tvö vítaköst.

Bjarki Már minnkaði muninn í tvö mörk, 12-14, en Norðmenn skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því, 12-16.

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og minnkaði muninn tvisvar í eitt mark. Eftir þennan góða kafla skoruðu Norðmenn þrjú mörk í röð og endurheimtu fjögurra marka forskot, 17-21.

Frábær endurkoma

Íslendingar gáfust ekki upp og átu muninn aftur niður. Ómar Ingi fann einhverjar aukabirgðir af orku og fór mikinn sem Elvar Örn í vörn og sókn.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur á vellinum með tíu mörk.getty/Nikola Krstic

Christian O'Sullivan kom Noregi þremur mörkum yfir, 20-23, en Ísland svaraði með 4-1 kafla og jafnaði í 24-24. Þetta var í fyrsta sinn síðan í stöðunni 3-3 sem það var jafnt. Ágúst Elí Björgvinsson átti góða innkomu í markið og átti stóran þátt í að Íslendingar jöfnuðu.

Lokakaflinn var æsilegur. Ísland fékk í tvígang tækifæri til að komast yfir en tapaði boltanum í bæði skiptin. Eftir seinni tapaða boltann þurfti Ómar Ingi aðhlynningu og fékk ekki að koma meira inn á í venjulegum leiktíma.

Christian O'Sullivan var afar drjúgur á lokakafla leiksins og í framlengingunni.getty/Sanjin Strukic

Norðmenn voru einnig mistækir í sóknarleiknum á lokakaflanum og töpuðu boltanum þrisvar sinnum á síðustu þremur mínútum leiksins. Janus Daði kom Íslendingum yfir, 26-27, en O'Sullivan jafnaði að bragði.

Í lokasókn Íslands var dæmd lína á Bjarka Má. Noregur hafði átján sekúndur til að skora sigurmark en tókst það ekki. Sagosen tapaði boltanum, Elvar náði honum og grýtti honum yfir allan völlinn í átt að tómu norsku marki en hann fór hárfínt framhjá.

Gleymdi verknum

Þrátt fyrir að meiðast á öxl, sem hefur lengi plagað hann, í fyrstu sókn framlengingarinnar dró Janus Daði vagninn fyrir Ísland í framlengingunni. Hann skoraði fjögur mörk og virtist hafa gleymt verknum í öxlinni.

Janus Daði kom Íslandi yfir, 29-30, en O'Sullivan jafnaði með síðasta skoti fyrri hálfleiks framlengingarinnar, 30-30.

Frammistaða Janusar Daða Smárasonar í framlengingunni verður lengi í minnum höfð.getty/Nikola Krstic

Spennan var óbærileg í seinni hálfleik framlengingarinnar. Janus Daði kom Íslandi yfir, 31-32, en Noregur svaraði með tveimur mörkum í röð og komst yfir, 33-32.

Janus Daði jafnaði í 33-33 en Norðmenn fengu lokasóknina. Og rétt áður en tíminn rann út skoraði Reinkind með föstu skoti sem Viktor Gísli réði ekki við. Lokatölur 33-34, Noregi í vil.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.