Handbolti

Bjöggi klár í leikinn bæði sem leikmaður og áhorfandi: Hvað segir EHF?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson faðmar Viktor Gísla Hallgrímsson sem hefur staðið sig frábærlega í fjarveru hans.
Björgvin Páll Gústavsson faðmar Viktor Gísla Hallgrímsson sem hefur staðið sig frábærlega í fjarveru hans. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Björgvin Páll Gústavsson vonast eftir því að fá að spila um fimmta sætið á EM með íslenska landsliðinu en það ræðst ekki fyrr en eftir kórónuveirupróf í dag.

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson hefur verið inn og út úr íslenska handboltalandsliðinu á síðustu dögum þökk sé gildum úr kórónuveiruprófum.

Hann fékk að spila leikinn á móti Króatíu eftir að hafa verið burtu í sex daga en var síðan aftur settur í einangrun eftir að Covid-19 gildi hans breyttust aftur. Björgvin missti því af leiknum á móti Svartfjallalandi.

Færsla Björgvins á Instagram.Instagram/@bjoggi

Björgvin Páll hefur að sjálfsögðu verið mjög ósáttur með þá meðferð sem hann hefur fengið hjá EHF en það er nú liðin meira en vika síðan hann greindist með veiruna.

Björgvin Páll á því að vera útskrifaður samkvæmt reglum út um allan heim en er samt enn læstur inn á herbergi á meðan beðið er eftir niðurstöðu úr nýjasta prófinu.

Björgvin hefur tjáð sig um stöðuna á samfélagsmiðlum og nýjasta færsla hans er táknræn eins og sést hér við hliðar.

Hann ætlar að mæta á síðasta leik íslenska liðsins sem annað hvort leikmaður eða áhorfandi. Það er EHF sem mun ráða því.

Ef þeir banna honum að taka þátt í leiknum þá mun HSÍ skrá hann út úr mótinu og þá má hann mæta á leikinn sem áhorfandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×