„Þetta er mjög erfitt. Ég verð bara að viðurkenna það. Við erum undir andlegu álagi,“ segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari eftir að enn fleiri smit voru staðfest í íslenska hópnum.
„Það er erfitt að halda sjó en við vorum að funda áðan og við ætlum að berjast til síðasta manns í þessu. Ég þarf að púsla saman nýrri vörn og menn þurfa að vera fljótir að læra sem eru að koma inn í hópinn.“
Guðmundur segir ýmislegt hafa gengið á bak við tjöldin. Til að mynda hafi verið hringt í menn til að koma út en þeir hafi verið með Covid.
„Þetta er miklu erfiðara en menn halda og menn þurfa að fara í próf áður en þeir geta komið. Það er flækjustig á bak við tjöldin sem menn vita ekki af.“
Guðmundur er enn að reyna að bæta mönnum við hópinn en það er knappur tími til stefnu. Bjarni Ófeigur Valdimarsson er væntanlegur og spurning með fleiri.