Handbolti

Spánverjar stálheppnir gegn Pólverjum en eru komnir áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spánverjar gátu þakkað markverðinum Rodrigo Corrales sigurinn á Pólverjum.
Spánverjar gátu þakkað markverðinum Rodrigo Corrales sigurinn á Pólverjum. getty/Kolektiff Images

Spánverjar eru komnir í undanúrslit á EM í handbolta eftir sigur á Pólverjum í lokaleik sínum í milliriðli II, 27-28. Pólland fékk tvö dauðafæri til að jafna metin undir lok leiks en Rodrigo Corrales, markvörður Spánar, varði í bæði skiptin.

Spánn varð Evrópumeistari 2018 og 2020 og á enn möguleika á að vinna þriðju gullverðlaunin á EM í röð.

Það ræðst í kvöld, eftir leik Svía og Norðmanna, hvort Spánverjar endi í fyrsta eða öðru sæti milliriðils II. Ef Noregur vinnur lendir Spánn í 2. sæti riðilsins en önnur úrslit þýða að spænska liðið vinnur hann.

Þrátt fyrir að vera án sterkra leikmanna gerðu Pólverjar Evrópumeisturunum erfitt fyrir í leiknum í dag.

Spánn byrjaði leikinn betur og komst mest fjórum mörkum yfir. Pólland gafst ekki upp og var aðeins marki undir í hálfleik, 13-14.

Spánverjar voru alltaf fetinu framar en Pólverjar héngu í skottinu á þeim. Miklu munaði um að markverðir Spánar vörðu ekki skot nær allan seinni hálfleikinn.

Ángel Fernández kom Spáni þremur mörkum yfir, 25-28, en Pólland skoraði næstu tvö mörk og minnkaði muninn í eitt mark, 27-28, þegar rúm mínúta lifði leiks. Eftir vandræðalega sókn töpuðu Spánverjar boltanum og Pólverjar fóru í hraðaupphlaup.

Þar fengu þeir tvö dauðafæri en Corrales varði þau bæði, frá Arkadiuz Moryto og Jan Czuwara, og tryggði Spáni sigurinn.

Ferran Sole, Agustín Casado og Aleix Gómez skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Spán. Moryto var markahæstur í liði Póllands með sex mörk. Pólverjar fengu aðeins eitt stig í milliriðli II.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×