Viðskipti innlent

Al­vot­ech eykur hluta­fé meira en áður hafði verið á­kveðið

Atli Ísleifsson skrifar
Róbert Wessman er stjórnarformaður og stofnandi Alvotech.
Róbert Wessman er stjórnarformaður og stofnandi Alvotech. Alvotech

Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree II tilkynntu í gær um fjárfestar hafi óskað eftir að skrá sig fyrir 21 milljón Bandaríkjadala til viðbótar í beinni hlutafjáraukningu Oaktree II í lokuðu útboði í tengslum við fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna.

Með þessu er verið að stækka hlutafjáraukninguna en þetta kemur til viðbótar við hlutafjáraukninguna sem tilkynnt var um 7. desember síðastliðinn. Oaktree II er hlutdeildarfélag Oaktree Capital Management, L.P.

Sagt er frá þessu í tilkynningu frá Alvotech sem send var á fjölmiðla í gærkvöldi. Hlutafjáraukningin, sem nemur nú samtals um 175 milljónum dala og samanstendur af almennum hlutabréfum að andvirði 10 dala á hlut, er drifin af umframeftirspurn íslenskra fjárfesta fyrir milligöngu Arctica Finance, Arion banka og Landsbankans.

„Þessi 21 milljón dala aukning kemur til viðbótar við fjárfestingu annarra leiðandi fjárfesta, en á meðal þeirra eru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek Holdings, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management.

Gert er ráð fyrir að sameining fyrirtækjanna skili Alvotech 475 milljónum dala (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum). Þetta felur í sér 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree II (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum), yfir 175 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu (PIPE[1]fjármögnuninni); og 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum sem þeir fjármögnuðu fyrir árslok 2021. Áætlað heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala,“ segir í tilkynningunni.

Samruninn gangi í gegn á fyrri helmingi árs

Haft er eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og stofnanda Alvotech, að hlutafjáraukningin sé til marks um þann mikla áhuga sem langtímafjárfestar hafi sýnt félaginu nú þegar unnið sé áfram að sameiningunni við Oaktree II.

Gert er ráð fyrir að samruninn gangi í gegn á fyrri helmingi ársins 2022.

Alvotech er líftæknilyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og segir að það hafi að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja um allan heim.


Tengdar fréttir

Alvotech klárar 60 milljarða fjármögnun og fer á markað í Bandaríkjunum

Alvotech hyggur á skráningu félagsins í bandarísku kauphöllina en skráningin mun fara fram með sameiningu Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II, sem stýrir eignum að verðmæti 156 milljörðum Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íslenska líftæknifyrirtækinu. 

Alvotech reiknar með 100 milljarða króna tekjum árið 2025

Áætlanir Alvotech gera ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins nemi 800 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 105 milljarða króna, á árinu 2025. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem íslenska líftæknifyrirtækið birti í dag samhliða tilkynningu um samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition og skráningu í bandarísku kauphöllina.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.