Innherji

Alvotech klárar 60 milljarða fjármögnun og fer á markað í Bandaríkjunum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Alvotech

Alvotech hyggur á skráningu félagsins í bandarísku kauphöllina en skráningin mun fara fram með sameiningu Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II, sem stýrir eignum að verðmæti 156 milljörðum Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íslenska líftæknifyrirtækinu. 

Viðskiptin skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni sem skiptist í um 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree Acquisition Corp. II og yfir 150 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum, þar sem verðmat á hvern hlut eru tíu dalir. 

Fjárfestarnir eru meðal annars: Suvretta Capital, Athos (sem er fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management, og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka, Landsbankanum og Arctica Finance, auk 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum. 

Innherji greindi frá áformum Alvotech um miðjan nóvember en þá voru einnig uppi áform um að skrá félagið á markað á Íslandi. 

Heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala. Gert er ráð fyrir að þegar sameining Alvotech og Oaktree hefur að fullu gengið í gegn, muni markaðsviðskipti með hlutabréf í sameinuðu fyrirtæki fara fram undir auðkenninu ALVO á NASDAQ í Bandaríkjunum.

Alvotech var stofnað árið 2013 af Róberti Wessman og er í meirihlutaeigu Aztiq, fjárfestingafélags sem Róbert leiðir. Þá er samheitalyfjafyrirtækið Alvogen, sem Róbert stýrir einnig, auk þess stór hluthafi, en í því félagi eru fjárfestingasjóðirnir CVC Capital Management og Temasek stórir eigendur. Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta sínu hlutafé fyrir bréf í sameinuðu félagi.

Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga rúmlega 80 prósent í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition um 11 prósent, og áðurnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 7 prósenta hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Höfuðstöðvar og framleiðsla Alvotech er á Íslandi í hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýrinni í Vísindagörðum Háskóla Íslands.

Alvotech hefur þegar gert samninga um forsölu lyfja með samstarfssamningum við önnur stór lyfjafyrirtæki sem sjá um sölu og dreifingu framleiðslunnar í yfir 60 löndum. Þar á meðal eru lyfjarisinn Teva í Bandaríkjunum og Stada í Evrópu sem greiða Alvotech fyrir sérleyfi til markaðssetningar lyfja sem fyrirtækið þróar og framleiðir. 

Alls hefur Alvotech þegar selt þessi sérleyfi fyrir jafnvirði hátt í 1,15 milljarða Bandaríkjadala og eiga um 80 prósent samningsfjárhæðanna eftir að greiðast til félagsins.

„Þessi viðskipti sem við tilkynnum í dag eiga að gera okkur kleift að bæta fleiri lyfjum í þróun og með því leggja frekari drög að langtíma vexti fyrirtækisins,” segir Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.

Fram hefur komið í máli stjórnenda félagsins að það stefni að því að velta Alvotech verði um 20 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2027. Alvotech réðst fyrir skömmu í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni og verður það um 24 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum.

Eitt þeirra lyfja sem Alvotech er að þróa er AVT02, sem þróað er sem hliðstæða líftæknilyfsins Humira. Lyfið hefur á síðustu árum verið tekjuhæsta lyf heims með árlega sölu sem jafngilti 2.600 milljörðum króna á árinu 2020.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.