Innherji

Ráðherra skipi sjö manna stjórn yfir Landspítalanum

Hörður Ægisson skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra en með frumvarpi hans um stjórn yfir Landspítalnum er meðal annars verið að taka upp fyrirkomulag sem gildir almennt hjá stóru sjúkrahúsunum í Svíþjóð.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra en með frumvarpi hans um stjórn yfir Landspítalnum er meðal annars verið að taka upp fyrirkomulag sem gildir almennt hjá stóru sjúkrahúsunum í Svíþjóð. vísir/vilhelm

Heilbrigðisráðherra mun skipa sjö manna stjórn yfir Landspítalanum til tveggja ára í senn en í henni þurfa meðal annars að vera tveir stjórnarmenn með sérþekkingu á rekstri og áætlanagerð.

Þetta kemur fram í drögum að nýju frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra en það er liður í innleiðingu þeirra áherslumála sem komu fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem var kynntur í lok nóvember.

Markmið frumvarpsins er sagt vera að setja á stofn stjórn yfir spítalanum sem eigi að tryggja frekari faglegan rekstur hans. Stjórninni er ætlað að starfa sem æðsta valdi innan stofnunarinnar og eiga ríkt samstarf við forstjóra Landspítalans sem og ráðherra um stefnu og rekstur hans.

Þá kemur fram í frumvarpinu að stjórnin skuli marka Landspítalanum langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun heilbrigðisráðherra og einnig að staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun hennar og fjárhagsáætlun. Í þessu felist sömuleiðis að stjórninni sé ætlað að bera ábyrgð á framkvæmd innra eftirlits innan Landspítala með reglubundnum aðgerðum og ráðstöfunum til að stuðla að hagkvæmni í rekstri, öryggi fjármuna, áreiðaleika upplýsinga og að markmiðum starfseminnar sé náð.

Til viðbótar við tvo stjórnarmenn sem hafa sérþekkingu á rekstri og áætlanagerð skal stjórn Landspítalans skipuð tveimur með sérþekkingu á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði eða menntun heilbrigðisstétta. Þá verði einnig skipaðir tveir stjórnarmenn sem eru fulltrúar starfsmanna með málsfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

Þá segir í drögum frumvarpsins að formaður stjórnar Landspítalans skuli reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi spítalans og árangri hans. Stjórnarformaðurinn muni einnig upplýsa heilbrigðisráðherra um veigamikil rekstrarleg eða fagleg frávik í rekstri hans.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að þegar litið sé til annarra spítala á hinum Norðurlöndunum sé að finna mjög mismunandi stjórnarfyrirkomulag yfir rekstri þeirra. Í Svíþjóð séu hins vegar almennt stjórnir yfir stórum sjúkrahúsum og það sama eigi við um í Noregi en þar þurfi að hafa í huga að þau eru almennt hlutafélög og fer um starfsemi þeirra eftir hlutafélagalögum, þar sem skylt er að hafa stjórnir.

Fram til ársins 2007 var stjórn yfir Landspítalanum en með ákvörðun Alþingis var ákveðið að leggja niður það fyrirkomulag. Þess í stað var kveðið á um að ráðherra skipaði níu manns og jafnmarga til vara í ráðgjafarnefnd Landspítala til fjögurra ára í senn. Nefndinni var ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans. Ráðgjafarnefndinni var hins vegar ekki komið á fót fyrr en í júní árið 2018.

Tveimur árum síðar var ákvæði laganna um ráðgjafarnefnd fellt niður sem og ákvæði um lækna- og hjúkrunarráð sem hafði starfað um langt árabil. Í staðinn var kveðið á um sérstakt fagráð sem forstjóri Landsspítalans skipar. Ber honum að leita álits þess ráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar.

Fréttin var uppfærð kl. 11:30.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

„Ég fékk þá tilfinningu að spítalinn væri einstaklega illa rekinn“

„Það vakti ekki hrifningu hjá mér hvernig Landsspítalinn nálgaðist fjárlagaumræðuna, mér fannst það ekki sérstaklega trúverðugt, þekkjandi til rekstrar. Ég fékk ekki tilfinningu fyrir því að þarna væri vel farið með opinbert fé. Þvert á móti fékk ég þá tilfinningu að spítalinn væri einstaklega illa rekinn.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.