Viðskipti innlent

Meðal­kaup­verð íbúða í landinu átta milljónum hærra en fyrir ári

Atli Ísleifsson skrifar
Varðandi leigumarkaðinn segir í skýrslunni að meðalleigufjárhæð sé 205 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu, 170 þúsund í nágrenni höfuðborgarinnar og 145 þúsund á landsbyggðinni.
Varðandi leigumarkaðinn segir í skýrslunni að meðalleigufjárhæð sé 205 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu, 170 þúsund í nágrenni höfuðborgarinnar og 145 þúsund á landsbyggðinni. Vísir/Vilhelm

Meðalkaupverð íbúða á landinu var 58,5 milljónir króna í nóvember síðastliðinn samanborið við 50,8 milljónir króna nóvember árið áður. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalkaupverð 67,6 milljónir króna en þar af var það 58 milljónir króna fyrir íbúðir í fjölbýli og 98 milljónir fyrir sérbýli.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar segir að árshækkun íbúðaverðs hafi mælst 15,4 prósent á landinu öllu í nóvember.

„Enn eitt metið á höfuðborgarsvæðinu féll í nóvember þegar 43,6% allra seldra íbúða seldust yfir ásettu verði. Hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var met einnig slegið þegar 26,9% íbúða seldust yfir ásettu verði en hlutfallið var tæp 17% í október og rúm 21% í september.“

Fjöldi íbúða í sölu í sögulegu lágmarki

Í fyrstu vikunni í janúar voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er 20,2 prósent minna en 1. desember síðastliðinn, en bæði fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli eru í sögulegu lágmarki. „Fyrir tæpum tveimur árum, nánar til tekið í maí 2020, var fjöldi þeirra um 2.200. Meira en helmingur af íbúðum til sölu eru með fjögur herbergi eða fleiri og því hefur dregið enn meira úr minni íbúðum til sölu.“

Varðandi leigumarkaðinn segir að meðalleigufjárhæð sé 205 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu, 170 þúsund í nágrenni höfuðborgarinnar og 145 þúsund á landsbyggðinni.

Bjóða ekki lengur upp á lægstu óverðtryggðu vextina

Þá segir að bankarnir bjóði ekki lengur upp á lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum.

„Gildi og Lífeyrissjóður Verslunarmanna eru með lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum í dag. Óverðtryggð sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna voru hærri en uppgreiðslur en þetta er í fyrsta skipti í 18 mánuði sem það gerist. Hlutdeild óverðtryggðra lána af heildaríbúðalánum heimilanna hélt áfram að aukast og mældist 52,7% í nóvember þátt fyrir stýrivaxtahækkanir,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.