Innherji

Seðlabankinn kynnir varanlegan lausafjárglugga fyrir fjármálafyrirtæki

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en samhliða opnun lausafjárgluggans fellur úr gildi sérstakur tímabundinn veðlánarammi fyrir fjármálafyrirtæki frá apríl 2020 sem var hluti af aðgerðum til að bregðast við áhrifum farsóttarinnar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en samhliða opnun lausafjárgluggans fellur úr gildi sérstakur tímabundinn veðlánarammi fyrir fjármálafyrirtæki frá apríl 2020 sem var hluti af aðgerðum til að bregðast við áhrifum farsóttarinnar. Vísir/Vilhelm

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að koma á fót lausafjárglugga sem fjármálastofnanir sem eiga í viðskiptum við bankann geta haft aðgang að til að bregðast við óvæntri og tímabundinni lausafjárþörf sem gæti haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Verður hann aðeins í boði fyrir þau fjármálafyrirtæki sem eiga ekki bundin innlán hjá bankanum og geta þau að hámarki sótt um lán fyrir allt að 5 milljarða króna.

Þetta kom fram í tilkynningu frá Seðlabankanum eftir lokun markaða síðastliðinn föstudag en þar segir að ekki sé um að ræða „hefðbundna lausafjárfyrirgreiðslu í peningapólitískum tilgangi.“

Viðskipti á millibankamarkaði með krónur eru takmörkuð og því taldi fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans, eins og fram kemur í fundargerð nefndarinnar sem var birt sama dag, mikilvægt að fjármálafyrirtæki gætu leitað til bankans með lausafjárfyrirgreiðslu gegn veði vegna skammtímalausfjárþarfar.

Samhliða opnun lausafjárgluggans, sem tekur gildi frá og með 19. janúar næstkomandi, fellur úr gildi sérstakur tímabundinn veðlánarammi fyrir fjármálafyrirtæki sem stofnað var til í apríl árið 2020 og var hluti af aðgerðum Seðlabankans til að bregðast við áhrifum farsóttarinnar.

Ekki um að ræða hefðbundna lausafjárfyrirgreiðslu í peningapólitískum tilgangi.

Samkvæmt ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar geta fjármálastofnanir á grundvelli lausafjárgluggans tekið veðlán til 14 daga á vöxtum sem eru 0,5 prósentum hærri en vextir Seðlabankans á veðlánum til 7 daga. Vextir á slíkum lánum verða breytilegir og munu taka mið af vaxtastigi Seðlabankans en meginvextir bankans eru í dag 2 prósent og hafa hækkað um 1,25 prósentur frá því síðastliðið vor.

Bundin innlán leysanleg gegn gjaldi

Þá hefur Seðlabankinn ákveðið að gera breytingar á skilmálum bundinna innlána til 7 daga – vextir á þeim eru 0,25 prósentum hærri en á viðskiptareikningum í bankanum – þannig að fjármálastofnunum verður heimilt að innleysa þau innan binditímans. Við innlausn missa þau hins vegar 0,25 prósenta bindiálagið og þá fjárhæð sem er innleyst og greiða að auki innlausnargjald fyrir þá daga sem eftir er en það er nú 1,25 prósent.

Seðlabankinn hætti að bjóða upp á bundin innlán til eins mánaðar vorið 2020. Við það losnuðu um það bil 200 milljarðar í bankakerfinu sem mestmegnis var fjárfest í ríkisvíxlum og hjálpaði við fjármögnun ríkissjóðs.Vísir

Tilgangur þessarar breytingar er sögð til að taka af allan vafa um að bundin innlán skuli flokka sem lausafjáreignir í útreikningi lausafjárhlutfall fjármálafyrirtækja.

Hert skilyrði um þátttöku í miðlun peningastefnu Seðlabankans

Seðlabankinn tilkynnti einnig fyrir helgi breytingar á stofnun og notkun viðskiptareikninga fjármálastofnana við bankann. Þær fela einkum í sér hert skilyrði um þátttöku í miðlun peningastefnunnar, meðal annars með móttöku innlána og veitingu útlána til almennings og fyrirtækja, og að starfsemi reikningshafa raski ekki fjármálastöðugleika.

Í nýju reglunum er sömuleiðis að finna skilyrði sem mun taka gildi 1. júní á þessu ári sem kveður á um að hlutfall innlána viðskiptavina fjármálafyrirtækis, sem geymt er á hefðbundnum viðskiptareikningi eða í bundnum innlánum hjá Seðlabankanum, má að hámarki nema 40 prósent á hverjum tíma.

Viðskiptalíkan vaxtamunarbanka byggir á því að innlán viðskiptavina verði að mestu leyti lögð inn á viðskiptareikning hjá seðlabönkum.

Þessum nýju reglum Seðlabankans er beint að starfsemi svonefndra vaxtamunarbanka (e. narrow banking). Í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar, sem kom síðast saman í byrjun desember á liðnu ári, kemur fram að nefndarmenn hafi rætt um kosti og galla slíkra banka og hvort starfsemi þeirra samræmist meginmarkmiðum Seðlabankans um að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.

Fjármálastöðugleikanefndin benti á að viðskiptalíkan vaxtamunarbanka byggi á því að innlán viðskiptavina séu að stærstum hluta lögð inn á viðskiptareikning hjá seðlabönkum. „Nefndin taldi því rétt að yfirfara og endurskoða þær reglur sem gilda um viðskipti og viðskiptareikninga hjá Seðlabanka Íslands með það í huga að standa vörð um lögbundin markmið Seðlabankans frá sjónarhóli fjármálastöðugleika,“ segir í fundargerðinni.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×