Viðskipti innlent

Líklega mesta loðnuveiði sögunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Börkur NK á siglingu inn Norðfjörð í nóvember.
Börkur NK á siglingu inn Norðfjörð í nóvember. SVN/Smári Geirsson

Börkur NK sem gerir út frá Seyðisfirði landaði 3.211 tonnum af loðnu í fiskimjölsverkmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í gær. Verksmiðjustjóri segir þetta stærsta loðnufarm sem hann hafi heyrt um.

Börkur NK er nýtt uppsjávarskip Síldarvinnslunnar. Eggert Ólafur Einarsson segir á vef Síldarvinnslunnar að vel hafi gengið að landa í gær, vinnslan gangi ágætlega en auðvitað vilji maður alltaf að enn betur gangi.

„Þetta er stærsti loðnufarmur sem hingað hefur borist og ég hef reyndar aldrei heyrt um stærri loðnufarm. Beitir hefur nokkrum sinnum landað hér yfir þrjú þúsund tonna förmum en það hefur ávallt verið kolmunni,“ segir Eggert Ólafur.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, hafði aldrei heyrt um annan eins afla.

„Samkvæmt Fiskistofu landaði Beitir hjá okkur 3.117 tonnum í byrjun mars 2017 og þá var því haldið fram að um heimsmet væri að ræða. Síðan hefur Beitir einu sinni landað kolmunnafarmi sem var 3.220 tonn. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri stærsti loðnufarmur sögunnar,“ segir Hafþór.

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í dag með 2.045 tonn og er gert ráð fyrir að hluti aflans fari til manneldisvinnslu. Hingað til hefur öll loðna sem borist hefur til Síldarvinnslunnar á vertíðinni farið til framleiðslu á mjöli og lýsi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×