Telur Greining Íslandsbanka að verðbólga muni hjaðna jafnt og þétt á þessu ári og vera við 2,5% markmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs. Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í febrúar og hækki síðan um 0,3% í mars og apríl. Gangi spáin eftir mun verðbólgan verða 4,3% í apríl en verðbólga án húsnæðis 2,8%.
Að sögn bankanna munu árstíðabundnar útsölur að venju hafa áhrif á verðlagsþróunina í janúar en á móti komi hinar ýmsu hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum. Þá hafi verð á mat og drykkjarvörum farið hækkandi.
Landsbankinn spáir því að útsölur á fötum og skóm annars vegar og húsgögnum og heimilisbúnaði hins vegar muni leiða til 0,58% lækkunar á vísitölu neysluverðs. Samkvæmt mælingum Íslandsbanka lækka húsgögn og heimilisbúnaður um 3,8% í janúar og fatnaður og skór um 6,1%. Telur bankinn að samanlögð áhrif þessara tveggja liða á vísitölu neysluverðs verði 0,58% til lækkunar.
Greining Íslandsbanka segir að húsnæðisliðurinn vegi enn þungt til hækkunar í vísitölu neysluverðs en húsnæðisverð hækkaði skarpt á seinasta ári.
„Í síðasta mánuði hækkaði reiknaða húsaleigan um 0,6% sem er hægari hækkun en verið hefur lengst af á síðasta ári. Við spáum svipuðum hækkunartakti í janúar og teljum að reiknaða húsaleigan hækki um 0,7% milli mánaða. Hugsanlega eru hér merki um að farið sé að hægja á hækkunartaktinum á íbúðamarkaðnum,“ segir í samantekt Íslandsbanka.
Ýmsir mælikvarðar bendi þó til þess að eftirspurn á íbúðamarkaði sé enn með mesta móti. Framboð íbúða er lítið, sölutími stuttur og margar íbúðir seljast yfir ásettu verði.