Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík 63-52 Njarð­vík | Heima­konur með sterkan sigur í Slátur­húsinu

Atli Arason skrifar
Daniela Wallen Morillo fór mikinn í liði Keflavíkur í kvöld.
Daniela Wallen Morillo fór mikinn í liði Keflavíkur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík sá til þess að Njarðvík komst ekki aftur á topp Subway-deildar kvenna í körfubolta. Keflvíkingar unnu góðan 11 stiga sigur á nágrönnum sínum í stórleik kvöldsins.

Keflavík byrjaði leikinn af miklum krafti en þær gerðu fyrstu níu stig leiksins og eftir það litu þær nánast ekki aftur. Kamilla Sól átti flotta innkomu af bekknum í liði Njarðvíkur um miðbik fyrsta leikhluta í stöðunni 13-2 en þá gerir hún fimm af næstu sjö stigum liðsins til að minnka muninn niður í fjögur stig, 13-9. Meira skoraði Njarðvík þó ekki í leikhlutanum sem Keflavík vann 15-9.

Bæði lið komu öflug inn í annan leikhluta og framan af skiptust liðin á að setja stig á töfluna en Njarðvík gerði fleiri, að miklu leyti þökk sé frábærri innkomu af bekknum frá Láru Ösp sem gerir 11 af 19 stigum liðsins í leikhlutanum. Njarðvík nær forustunni í fyrsta og eina skiptið í leiknum þegar Diéné gerir fjögur stig í röð, 23-24, og þrjár mínútur eftir af fjórðungnum. Keflvíkingar klára leikhlutan þó aðeins betur og liðin ganga til búningsherbergja í hálfleik í stöðunni 29-28.

Þriðji leikhluti var eign Keflavíkur frá upphafi til enda og Njarðvíkingar áttu enginn svör við sóknar- og varnarleik heimakvenna. Daniela Wallen var óstöðvandi en hún gerir helming af 18 stigum Keflavíkur í leikhlutanum sem Keflavík vinnur 18-5. Staðan fyrir síðasta fjórðunginn var því 47-33 og brekkan orðin ansi brött fyrir gestina.

Síðasti leikhlutinn stefndi í að vera formsatriði fyrir Keflavík en þökk sé 1-10 kafla Njarðvíkur um miðbik leikhlutans var munurinn allt í einu orðinn 6 stig, 53-47, og það stefndi allt í spennandi lokamínútur. Heimakonur svara þá með sex stiga kafla og þegar ein og hálf mínúta var eftir voru Keflavíkingar með 12 stiga forystu, 59-47 og leikurinn svo gott sem búinn. Collier gerir síðustu tvö stig leiksins af vítalínunni, en leiknum lauk með 11 stiga sigri Keflavíkur, 63-52.

Af hverju vann Keflavík?

Það var ekki mikið skorað í leiknum en bæði lið spiluðu flottan varnarleik á stórum köflum. Varnarleikur Keflavíkur var þó betri. Fimm varin skot hjá Keflavík gegn engu frá Njarðvík. Vörn Keflavíkur þvingaði gestina oft út í horn en Njarðvík tapaði alls 20 boltum í kvöld gegn 14 frá Keflavík.

Hverjar stóðu upp úr?

Daniela Wallen var besti leikmaður vallarins með 20 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar sem gera 23 framlagspunkta.

Í liði Njarðvíkur verður Lára Ösp Ásgerisdóttir að fá sérstakt hrós. Lára spilaði einungis 14 mínútúr en hún átti flotta innkomu af bekknum og í öðrum leikhluta þá dróg hún lið gestanna áfram en 11 af hennar 12 stigum i leiknum komu þá.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær Hauka í heimsókn næsta miðvikudag en sama dag taka Njarðvíkingar á móti Fjölni í Ljónagryfjunni í toppslag deildarinnar.

„Við breyttum nokkrum áherslum í kvöld sem litu vel út“

Hörður Axel, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, ásamt Hannesi Jónssyni, formanni KKÍ.vísir/sigurjón

Hörður Axel Vilhjálmsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, gat verið stoltur af liði sínu sem batt enda á sjaldséða fimm leikja taphrinu liðsins.

„Ég er stoltur af liðinu eftir erfiða leiki undanfarið. Þetta var rosalegur leikur sem við sýndum í kvöld með orku og samstöðu, allir sem einn,“ sagði Hörður Axel í viðtali við Vísi eftir leik.

„Það er margt sem spilar inn í, orkustigið var öðruvísi. Þegar þú tapar nokkrum leikjum í röð þá grefur þú þig í smá holu. Við höfum fengið góðan tíma í að vinna í okkar málum og núllstilla okkur. Við breyttum nokkrum áherslum í kvöld sem litu vel út.“

„Varnarlega erum við að gera aðeins öðruvísi en við höfum verið að gera. Við erum með þannig samsett lið að við þurfum að fá mikið út úr vörninni okkar til að ná að keyra upp hraðan og fá auðveldar körfur. Þannig höfum við spilað best frá því að ég og Jonni komum inn í þetta. Það er kannski eitthvað sem við höfum fjarlægst undanfarið en þetta var leikur sem við fórum aftur í grunnatriðin.“

„Það voru allir að gera þetta saman og boltinn var að fljóta fínt. Við vorum að finna opin skot þó svo að þau fóru ekki öll niður. Við vorum að komast á vítalínuna sem er eitthvað sem okkur hefur ekki verið að takast upp á síðkastið. Það er rosalega margt sem var öðruvísi í dag en í þessum fimm tapleikjum á undan.“

Varnarleikur Keflavíkur náði að halda einum besta leikmanni deildarinnar til þessa, Aliyah Collier, undir sínu meðaltali en á 38 mínútum gerði Collier 10 stig úr 16 tilraunum utan af velli.

„Hún er hörku leikmaður. Þetta er sambland af mörgu en það er langt síðan allir spiluðu og það brýtur upp ryþma að hafa ekki spilað í mánuð og það sást alveg á leiknum í kvöld. Við gefum vörninni okkar hrós því við gerðum rosalega vel á hana ásamt öðrum leikmönnum. Að sama skapi þá veit bæði hún og við að hún getur sýnt meira en þetta. Daniela var rosalega góð á henni, þann tíma sem Daniela spilaði,“ svaraði Hörður, aðspurður út í varnarleik Keflavíkur á Collier.

Keflavík er með sigrinum komið upp í fjórða sæti deildarinnar þar sem þær stökkva yfir Hauka. Næsti leikur liðsins er gegn Haukum en Hörður er ekki að spá mikið í töflunni á þessum tímapunkti.

„Við tökum bara einn leik í einu. Eins og staðan er í dag er enginn ástæða til að vera að horfa á töfluna. Maður telur bara upp úr hattinum í lok mótsins og við sjáum hvar við stöndum þá. Þangað til erum við bara að einbeita okkur að okkur sjálfum og reyna að bæta okkur með hverjum leik. Frammistaðan í kvöld er eitthvað sem við getum bætt ofan á.“

 


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira