Innherji

Íslendingar straujuðu kortin fyrir 93 milljarða í desember

Hörður Ægisson skrifar
Heildarkortavelta í verslun jókst um tæplega 2 milljarða króna í verslun í desember síðastliðnum og var samtals 57,4 milljarðar.
Heildarkortavelta í verslun jókst um tæplega 2 milljarða króna í verslun í desember síðastliðnum og var samtals 57,4 milljarðar. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Heildar greiðslukortavelta, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna, í desember á nýliðnu ári nam samtals rúmum 101 milljarði króna. Veltan jókst um tæplega 13 prósent frá fyrri mánuði og um 18,6 prósent borið saman við desember á árinu 2020.

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur hins vegar ekki dregist jafn mikið saman á milli mánaða í um áratug.

Þetta sýna nýjar greiðslukortatölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) en innlend kortavelta er sögð sýna jólalega aukningu í innkaupum á matvöru, bókum, fötum, áfengi og eins í áskriftarkaupum að fjölmiðlum.

Samtals nam kortavelta Íslendinga hérlendis rúmlega 92,5 milljörðum króna á síðasta mánuði ársins og jókst hún um meira en 16 prósent á milli mánaða. Sé litið til desember ársins 2020 var veltan um 10,4 prósent hærri og borið saman við desember árið 2019 var liðlega 20 prósenta aukning í innlendri kortaveltu.

Samkvæmt tölum RSV straujuðu Íslendingar kortin sín innanlands fyrir samtals 918 milljarða króna á árinu 2021. Það er um 96 milljarða króna aukning frá árinu 2020, eða sem nemur um 11,7 prósent.

Rannsóknasetur verslunarinnar segir að hlutfall kortaveltu í verslun hafi aukist enn meira í desember, á kostnað veltunnar í þjónustu, en velta skiptist þannig að 62 prósent kortaveltu Íslendinga hérlendis fór í verslun en 38 prósent í þjónustu. Að jafnaði er veltan hins vegar nokkuð jöfn flesta aðra mánuði ársins.

Þá kemur fram í frétt á heimasíðu RSV að 44 prósent aukning hafi verið í flokknum „Miðlun“ á milli mánaða (sjá mynd að ofan) og bent á að í gegnum árin megi greina „jólalega þróun“ með toppum í desember og dýfum í janár ár hvert. „Líklega stafar þróunin af því að margir kaupa áskrift að hinum ýmsu miðlum til að njóta dagskrár þeirra í aðdraganda jóla og jólafríinu en segja svo áskriftinni aftur upp í janúar,“ segir RSV.

Sé litið til hlutfalls erlendrar kortaveltu af heildarveltunni á Íslandi þá nam hún 8,8 prósent í desember á liðnu ári en sama hlutfall var tæp 2 prósent á árinu 2020 og 14,4 prósent í desember 2019.

Samtals dróst erlenda kortaveltan saman um 13 prósent á milli mánaða í desember (sjá myndina að ofan). Er það mesti samdráttur sem mælst hefur á milli nóvember og desember frá því að RSV hóf gagnasöfnun á kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Leiða má líkur að því að samdrátturinn nú sé afleiðing sóttvarnartakmarkana sem gripið hefur verið víða um heim vegna Omicron afbrigðis kórónuveirunnar.


Tengdar fréttir

Íslendingar óðir í raf- og heimilistæki í nóvember

Netverslun Íslendinga jókst um 112,5% milli október og nóvember. Sá síðarnefndi hefur á seinustu árum orðið að stærsta netverslunarmánuði ársins með tilkomu tilboðsdaga á borð við dag einhleypra, svartan föstudag og netmánudag. Þrátt fyrir mikla aukningu nær veltan þó ekki sömu hæðum og í nóvember í fyrra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.