Viðskipti innlent

Hæstiréttur tekur mál Arion banka gegn þrotabúi WOW air ekki fyrir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hinar fagurbleiku flugvélar WOW air sjást ekki mikið lengur.
Hinar fagurbleiku flugvélar WOW air sjást ekki mikið lengur. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur féllst ekki á málskotsbeiðni Arion banka sem vildi fá að áfrýja deilu við þrotabú flugfélagsins um fjármuni sem lagðir voru inn á reikning Wow air eftir að flugfélagið varð gjaldþrota.

Málið hefur komið bæði til kasta héraðsdóms og Landsréttar og snýst það um tæpar tíu milljónir króna sem lagðar voru inn á reikninga flugfélagsins sáluga WOW air, eftir að það var úrskurðað gjaldþrota.

Arion banki var viðskiptabanki flugfélagsins og í gildi voru samningar um bankinn ætti handveð í átta reikningum WOW air ásamt innistæðum til tryggingar greiðslum á tilgreindum skuldum.

Snerist um hvort bankinn ætti rétt á greiðslum sem bárust eftir gjaldþrotið

WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta þann 28. mars 2019. Þrotabú WOW air viðurkenndi handveðsrétt bankans í reikningunum miðað við stöðu þeirra þann 28. mars 2019.

Lýsti þrotabúið því hins vegar yfir að fjármunir sem lagðir voru inn á reikningana eftir þá dagsetningu væru eign þrotabúsins

Málið kom til kasta bæði héraðsdóms og Landsréttar en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Arion banka í vil, að bankinn ætti veðrétt í þá fjármuni sem lagðir voru inn á reikningana eftir að WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta.

Varðar ekki mikilsverða almannahagsmuni 

Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem sneri úrskurði héraðsdóms við og hafnaði kröfu bankans.

Arion banki óskaði eftir því að fá skjóta málinu til Hæstaréttar á þeim grundvelli að málið myndi hafa mikið fordæmisgildi, þar sem ekki hafi reynt með beinum hætt á ágreiningsefni málsins fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að málið varði hvorki ekki mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að það ætti að koma til kasta dómstólsins. Var beiðninni því hafnað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×