Innherji

Eftirlitið segir stjórnvöldum að hafa hemil á Isavia

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Á síðustu árum hafa fjölmörg mál sem tengjast háttsemi Isavia komið á borð Samkeppniseftirlitsins eða annarra eftirlitsstofnana. 
Á síðustu árum hafa fjölmörg mál sem tengjast háttsemi Isavia komið á borð Samkeppniseftirlitsins eða annarra eftirlitsstofnana.  VÍSIR/VILHELM

Samkeppniseftirlitið segir háttsemi Isavia á síðustu árum vekja áleitnar spurningar um það hvernig ríkisfyrirtækið nálgast samkeppni og samkeppnismál. Eftirlitið hefur beint tilmælum til ráðherra málaflokksins sem miða að því að skapa heilbrigða umgjörð um starfsemi á Keflavíkurflugvelli, draga úr óhagkvæmni í rekstri hans og efla ferðaþjónustu.

„Á liðnum árum og misserum hefur komið fram allmörg mál sem varða starfsemina á Keflavíkurflugvelli og vekja áleitnar spurningar um það hvernig Isavia nálgast samkeppni og samkeppnismál,“ er haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningu á vef stofnunarinnar. „Af þessum málum má draga þá almennu ályktun að bæta þurfi stefnumörkun á þessu sviði.“

Samkeppniseftirlitið birtir ekki álit af þessu tagi nema það telji að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæli stríði gegn markmiði samkeppnislaga eða torveldi frjálsa samkeppni. Stofnunin byggir álitið meðal annars á þeim fjölmörgu álitamálum sem hafa komið upp á liðnum árum í tengslum við háttsemi Isavia.

Samningar sem Isavia hefur gert um veitingaþjónustu og bankaþjónustu í flugstöðinni, og við rútufyrirtæki um aðstöðu við flugstöðina hafa komið á borð Samkeppniseftirlitsins á undanförnum árum. Auk þess hefur eftirlitið tekið fyrir samkeppnishamlandi fyrirkomulag við úthlutun á afgreiðslutímum til flugfélaga og stöðvað gjaldtöku Isavia á stæðum fyrir fólksflutninga vegna samkeppnishindrana.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. 

Þá rifjar Samkeppniseftirlitið upp að Samgöngustofa hafi í tvígang þurft að snúa við ákvörðunum Isavia vegna afturköllunar á leyfi flugafgreiðslufyrirtækis, og að Isavia hafi lagt stein í götu tveggja bílageymslufyrirtækja sem starfa í samkeppni við ríkisfyrirtækið.

Sumum framangreindra athugana er lokið með ákvörðun eða áliti. Aðrar voru til meðferðar þegar Covid-19 skall á en voru lagðar til hliðar, bæði vegna breyttra aðstæðna í flugsamgögnum til og frá landinu, en einnig vegna anna annarrar og forgangsröðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

„Flugsamgöngur til og frá Íslandi hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir íslenska neytendur, ferðamenn, ferðaþjónustu og margskonar aðra atvinnustarfsemi sem reiðir sig á flutninga. Sama á við um efnahagslega velsæld þjóðarinnar og samkeppnishæfni Íslands,“ er jafnframt haft eftir Páli Gunnari.

„Með þetta í huga setur Samkeppniseftirlitið í dag fram tilmæli til stjórnvalda, sem eru til þess fallin að skapa betri og samkeppnisvænni umgjörð um flugvallarekstur á Íslandi, gera starfsemi Isavia markvissari og öflugri, efla ferðaþjónustu á Íslandi, tryggja hagsmuni ferðalanga og auðvelda eftirfylgni við samkeppnislög.“

Í rökstuðningi með sjöundu tilmælunum, þ.e. þeim sem snúa að því að auka hagkvæmni í starfsemi Keflavíkurflugvallar, rifjar Samkeppniseftirlitið upp skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um samkeppnismat á ferðaþjónustu sem kynnt var í nóvember 2020.

Í skýrslunni er vísað til rannsókna sem bendi til þess að núverandi eignarhald og fyrirkomulag við flugþjónustu á Íslandi feli í sér minni skilvirkni en á öðrum samanburðarflugvöllum í Evrópu. Er í því sambandi vísað til skýrslu „Airport Benchmarking Report 2019“ þar sem fram komi að Isavia sé með minnstu samkeppnishæfni reiknað út frá kostnaði (e. least cost-competitive) af rekstraraðilum flugvalla í Evrópu.

Hvað varði Keflavíkurflugvöll sérstaklega þá hafi hann verið talinn með næst minnstu samkeppnishæfnina út frá kostnaði (e. second least cost-competitive) af öllum flugvöllum í Evrópu samkvæmt umræddri skýrslu. Ástæða þessa væri sú að Isavia greiði hærra verð fyrir aðföng en nokkur annar flugvöllur í Evrópu auk þess sem framleiðni væri mjög lág.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.