Innherji

Veðtökuhlutfallið hefur ekki verið lægra um árabil í Kauphöllinni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Nasdaq kauphöllin á Íslandi. nasdaq Iceland
Nasdaq kauphöllin á Íslandi. nasdaq Iceland VÍSIR/VILHELM

Veðsetning hlutabréfa í Kauphöllinni hefur ekki verið minni í meira en fjögur ár ef hún er sett í samhengi við heildarmarkaðsvirði skráðra félaga. Þetta má lesa úr nýbirtum tölum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar yfir veðsetningu hlutabréfa.

Hlutfall veðtöku nam 10,7 prósent í desember en leita þarf aftur til júní 2017 til að finna minni veðsetningu. Það er mælt þannig að markaðsvirði hlutabréfa sem eru veðsett í kerfum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar er deilt með heildarmarkaðsvirði þeirra félaga sem um ræðir á viðkomandi dagsetningu.

Hlutfallið fór ört vaxandi frá haustinu 2018 þegar ljóst varð að WOW air var í miklum fjárhagslegum vandræðum. Það náði síðan hámarki í 15,9 prósentum í maí 2020 eftir að Covid-19 hafði sett mark sitt á hlutabréfaverð.

Gögn Nasdaq verðbréfamiðstöðvar sýna einungis beina veðsetningu þar sem veð í verðbréfi hefur verið skráð á reikning í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og nýtur þannig réttarverndar.

Gögnin taka því hvorki tillit til þess að lánveitandi gæti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiðna.

Lífeyrissjóðir eiga um 35 prósent af markaðsvirði skráðra félaga og eru þær eignir óveðsettar. Bein veðsetningu hlutabréfa í eigu annarra fjárfesta en lífeyrissjóða er því hærri en gögn Nasdaq gefa til kynna.

Í síðasta tölublaði Fjármálastöðugleika, sem Seðlabanki Íslands gaf út í september, kom fram að bein veðsetning hlutabréfa í eigu annarra fjárfesta en lífeyrissjóða hefði numið 17 prósentum en til samanburðar var veðsetningin tæplega 11 prósent ef lífeyrissjóðir eru teknir með í reikninginn.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×