Innherji

Hlutabréfasjóður hjá Íslandssjóðum skaraði fram úr með 60% ávöxtun

Hörður Ægisson skrifar
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar Íslandsbanki var skráður á markað í fyrra. Heildarmarkaðsvirði félaga í Kauphöllinni hækkaði um 63 prósent og hlutabréfasjóðirnir bólgnuðu út.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar Íslandsbanki var skráður á markað í fyrra. Heildarmarkaðsvirði félaga í Kauphöllinni hækkaði um 63 prósent og hlutabréfasjóðirnir bólgnuðu út. Vísir/Arnar

Sjóðurinn IS EQUUS Hlutabréf, sem er í rekstri Íslandssjóða, var með hæstu ávöxtun allra hlutabréfasjóða á árinu 2021 en hann skilaði sjóðsfélögum sínum tæplega 60 prósenta ávöxtun. Aðrir hlutabréfasjóðir, sem eru einnig opnir fyrir almenna fjárfesta, voru með ávöxtun á bilinu 35 til 49 prósent á síðasta ári.

Þetta leiðir samantekt Innherja á ávöxtun innlendra hlutabréfasjóða í ljós en allir sjóðirnir þrettán skiluðu betri afkomu borið saman við þróun Úrvalsvísitölunnar en hún hækkaði um liðlega þriðjung á nýliðnu ári sem var afar gjöfult fyrir hlutabréfafjárfesta.

Góð ávöxtun ásamt umtalsverðu nettó innflæði í IS EQUUS þýddi að sjóðurinn, sem var stofnaður árið 2017, næstum fjórfaldaðist að stærð á árinu 2021 en eignir hans hækkuðu úr 3,5 milljörðum króna í 12,4 milljarða. Stærstu eignir sjóðsins, sem er stýrt af þeim Mogens G. Mogensen og Gísla Halldórssyni, í desember í fyrra voru Marel, Arion banka og Kvika banki en fjárfesting IS EQUUS í þeim félögum var um 42 prósent af heildareignum hans á þeim tíma.

Ólíkt sumum öðrum opnum hlutabréfasjóðum er IS EQUUS heimilt að fjárfesta í afleiðum að hámarki 50 prósent af heildareignum. Þá hefur sjóðurinn jafnframt heimild til að taka lán sem nemur fjórðung af heildareignum til skemmri tíma – stundum nefnd gírun – til að fjárfesta í hlutabréfum eða skortselja fjármálagjörninga.

Sjóðurinn Stefnir - Innlend hlutabréf, langsamlega stærsti hlutabréfasjóður landsins með um 36 milljarða eignir í stýringu, var með næst bestu ávöxtunina í fyrra, eða rúmlega 49 prósent. Þar á eftir kom Akta Stokkur, sem hefur rétt eins og IS EQUUS margfaldast að stærð á síðustu misserum, en hann skilaði sjóðsfélögum sínum nærri 48 prósenta ávöxtun.

Sú staðreynd að allir hlutabréfasjóðirnir eru að skila betri ávöxtun í samanburði við Úrvalsvísitöluna má meðal annars rekja til þess að vægi Marels, langsamlega verðmætasta fyrirtækisins í Kauphöllinni, er talsvert meira í vísitölunni en í eignasöfnum flestra sjóðanna. Hlutabréfaverð Marels hækkaði þannig minnsta allra skráðu félaganna í fyrra, eða um 10,9 prósent, en meirihluti fyrirtækja í Kauphöllinni sá hlutabréfaverð sitt hækka á bilinu 40 til 100 prósent.

Mishár umsýslukostnaður

Hástökkvari síðasta árs í Kauphöllinni var Arion banka, en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um meira en 100 prósent. Þar á eftir kom Eimskip en gengi bréfa flutningafélagsins hækkaði um tæplega 96 prósent á árinu sem leið.

Þóknun við kaup á hlut­deild­ar­skír­teinum í hlutabréfasjóðum nemur oftast á bilinu 1,5 til 2 prósent. Sá sem kaupir í sjóði fyrir eina milljón króna, svo dæmi sé tekið, greiðir þá fimmtán ­til tuttugu þús­und krónur í þókn­un. Til viðbótar innheimta sjóðirnir árlega umsýsluþóknun en í tilfelli IS EQUUS nemur hún 1,85 prósent en 1,71 prósent hjá Stefnir - Innlend hlutabréf. Í tilfelli Akta Stokks er umsýsluþóknunin nokkuð minni, eða 1,25 prósent, en sjóðurinn er einnig með árangurstengda þóknun sem er 20 prósent umfram þá ávöxtun sem honum tekst að skila í samanburði við Úrvalsvísitöluna. 

Sjóðirnir bólgna út

Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs nam uppsafnað innflæði í hlutabréfasjóði, að frádregnu útflæði, samtals um 29 milljörðum króna. Stöðugt innflæði ásamt miklum verðhækkunum í Kauphöllinni hefur valdið því að eignir hlutabréfasjóða hafa bólgnað út á undanförnum misserum. Í lok nóvember námu heildareignir þeirra nærri 154 milljörðum króna og höfðu þá aukist um liðlega 60 prósent á árinu.

Fjárfesting almennings í slíkum sjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í hlutabréfasjóðum meira en 53 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði þar sem fjárfestar hafa meðal annars verið færa sig úr áhættulitlum eignum, eins og ríkisskuldabréfum og innlánsreikningum, yfir í hlutabréf.

Á síðasta ári jukust hlutabréfaviðskipti í Kauphöllinni um 75 prósent. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam rúmlega 2.500 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði það um 63 prósent á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Kauphöllin laðar til sín tugi milljarða ef íslensk bréf færast upp um flokk hjá FTSE

Góðar líkur eru á því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á næsta ári og má þá búast við innflæði upp á tugi milljarða króna frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins. Þetta segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×