Viðskipti innlent

Munur á þróun leigu- og kaupverðs aldrei mælst meiri

Eiður Þór Árnason skrifar
Dýrast er að leigja í Vesturbæ Reykjavíkur.
Dýrast er að leigja í Vesturbæ Reykjavíkur. Vísir/Egill

Spenna á leigumarkaði hefur dregist saman síðustu misseri og leiguverð þróast með rólegasta móti, að sögn Hagfræðideildar Landsbankans. Hefur leiguverð nánast staðið í stað frá því að faraldurinn hófst og aðeins hækkað um 1,9% síðan í janúar 2020.

Talið er að aukin kaupgeta fólks, einkum vegna vaxtalækkana, skýri þessa þróun en hlutfall fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði hefur aldrei mælst hærra.

Við þær aðstæður dróst eftirspurn eftir leiguhúsnæði saman á sama tíma og minna var um skammtímaleigu til erlendra ferðamanna eftir að þeim fækkaði.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans en samkvæmt nýjustu gögnum Þjóðskrár um leiguverð sem ná til þinglýstra samninga á höfuðborgarsvæðinu í nóvember hækkaði leiguverð þar um 1,2% milli mánaða.

Þetta er talsvert meiri hækkun en á síðustu mánuðum en í október stóð verðið í stað og í september lækkaði það örlítið. Tólf mánaða hækkun leiguverðs mælist 3,4% á sama tíma og kaupverð íbúða í fjölbýli hefur hækkað um 16%.

„Til samanburðar hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 3,0%. Raunhækkun leigu, þ.e. hækkun á leigu umfram annað verðlag, mælist því innan við hálft prósentustig, sem hefur einkennt stöðuna núna fjóra mánuði í röð. Það má því segja að stöðugleiki ríki á leigumarkaði þar sem leiga þróist í takt við annað verðlag, ólíkt því sem hefur sést á íbúðamarkaði undanfarið,“ segir í Hagsjánni.

Munurinn á þróun leigu- og kaupverðs hafi aldrei mælst jafn mikill og nú og bendi til þess að hækkanir íbúðaverðs séu komnar fram úr því sem æskilegt geti talist.

Verð lækkað í Hafnarfirði og Garðabæ

Það sem af er ári hefur að jafnaði 547 leigusamningum verið þinglýst í hverjum mánuði. Það er heldur færra en í fyrra þegar 590 samningum var að jafnaði þinglýst, en þá hafði fjöldinn aukist talsvert frá fyrra ári.

Samanburður á fermetraverði samkvæmt nýjum þinglýstum samningum í nóvember gefur til kynna að fermetraverð tveggja herbergja íbúða sé hæst í vesturhluta Reykjavíkur. 

Þar leigist slík íbúð að meðaltali á 3.441 krónur á fermetra og hækkar um 4% frá því í nóvember í fyrra. Lægsta fermetraverð tveggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu er að finna í Garðabæ og Hafnarfirði, eða 2.679 krónur á fermetra að meðaltali. Lækkar verð þar um 9% milli ára samkvæmt þeim samningum sem þinglýst var í nóvember.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.