Innherji

Sjálfbær útgáfa jókst um ríflega 40 prósent milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Brim gaf út bæði blá og græn skuldabréf á árinu 2021.
Brim gaf út bæði blá og græn skuldabréf á árinu 2021. VÍSIR/VILHELM

Útgáfa sjálfbærra skuldabréfa á Íslandi nam 173 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 122 milljarða króna árið 2020 samkvæmt tölum frá sjálfbærniteymi KPMG. Vöxtur í útgáfu sjálfbærra bréfa nam því 42 prósentum á milli ára.

„Árið 2021 sáum við þónokkra þróun í útgáfu grænna skuldabréfa, auk félagslegra og sjálfbærra, frá árunum áður,“ segir Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærni hjá KPMG. Hann rifjar upp að fyrstu grænu skuldabréfin á Íslandi voru gefin út árið 2018 af Landsvirkjun og Reykjavíkurborg.

„Aukninguna myndi ég rekja til þess að fleiri aðilar á markaðnum, hvort sem það eru útgefendur, fjárfestar, miðlarar eða eftirlitsstofnanir, eru farnir að þekkja þessar fjármálaafurðir og sjá ábatann. Með aukinni þekkingu myndast betra umhverfi til útgáfa. Þá hafa fyrstu grænu skuldabréfin hjá Landsvirkjun, Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur, Reginn og fleirum reynst vel sem hefur skapað traust,“ segir Bjarni.

„Frá 2018 hafa leiðbeiningar um útgáfu grænna skuldabréfa þróast og mikil umræða skapast. Við munum sjá þá umræðu halda áfram, þ.e.a.s. hvað er grænt og hvað ekki, hversu langt aftur í baksýnisspegilinn má líta o.s.frv., sem ég tel að sé jákvætt.“

Bjarni Herrera.KPMG

Á árinu 2021 bættust nokkrir útgefendur í hópinn. Arion banki, Landsbankinn, Kvika og Sveitarfélögið Árborg gáfu út sín fyrstu grænu skuldabréf, útgerðarfélagið Brim gaf út bæði græn og blá bréf, og gefin voru út félagsleg skuldabréf til að fjármagna Háskólann í Reykjavík.

Þá héldu Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Reginn áfram að fjármagna sig með útgáfu grænna skuldabréfa og orkufyrirtækið GEG Power gaf út grænan fjármögnunarramma. Lánasjóður sveitarfélaga hafði gefið úr árið 2020 en gaf ekkert nýtt út á árinu 2021.

„Eitt stærsta skrefið á markaðnum 2021 var útgáfa ríkissjóðs á sjálfbærum fjármögnunarramma þar sem hann hefur heimild til að gefa út græn, félagsleg eða sjálfbær skuldabréf. Ríkissjóður hefur ekki enn gefið út bréf undir þeim ramma en vonandi fáum við að sjá hreyfingar á næsta ári,“ segir Bjarni.

Þá bendir hann á að græn útlán hafi aukist á milli ára og þau muni halda áfram að aukast eftir því sem bankarnir reyna að koma grænu fjármagni sem þeir hafa sótt á markað í vinnu.

„Þá munum við sjá löggjafann koma með meiri þunga inn í umræðuna með lagasetningu á næstu árum, með tilkomu flokkunarkerfis Evrópusambandsins (EU Taxonomy) og fleiri tilskipunum, lögum og reglugerðum,“ bætir hann við.

Þrettán íslenskir lífeyrissjóðir, þar á meðal Gildi og Stapi, ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) og kynntu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow í Skotlandi.

Stjórnendur hjá lífeyrissjóðunum Gildi og Stapa sögðu í samtali við Innherja að ekki yrði slakað á neinum kröfum sem sjóðirnir gera til fjárfestingakosta til þess að fylla upp í kvóta fyrir grænar fjárfestingar.

Davíð Rúdólfsson, forstöðurmaður eignastýringar Gildi sagði að áform sjóðsins tækju mið af því að framboð arðbærra grænna verkefna yrði nægilegt. Hann sagðist gera ráð fyrir að mikill meirihluti þessara fjárfestinga yrði erlendis en það myndi að endingu ráðast af framboði slíkra fjárfestingarkosta hér heima.

„Það er hins vegar mikil þróun að eiga sér stað í þessum málaflokki í dag, mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og tengdum lausnum. Eins höfum við séð töluverða aukningu á undanförnum árum á útgáfu grænna skuldabréfa sem og á grænvottun fasteigna og við gerum ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram á komandi árum,“ sagði Davíð.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.